Samantekt um þingmál

Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald o.fl.

755. mál á 151. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að bæta skilyrði fyrir virkri samkeppni og efla viðspyrnu hagkerfisins.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að lækka aldursmörk umsækjanda eða forsvarsmanns umsækjanda niður í 18 ár (lögræðisaldur) vegna rekstrarleyfis fyrir veitingastað eða gististað sem felur jafnframt ekki í sér heimild til áfengisveitinga. Þá er lagt til að gjöld vegna rekstrarleyfa tiltekinna veitinga- og gististaða verði lækkuð í því skyni að samræma betur raunverulegan umsýslukostnað við útgáfu slíkra leyfa. Enn fremur er lagt til að ökutækjaleigum verði ekki lengur skylt að hafa starfsstöð sína opna almenningi m.a. í því skyni að liðka enn frekar fyrir rafrænum viðskiptum og fjölbreyttari viðskiptaháttum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Lög um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verði af 33-47 milljónum kr. á ári vegna útgáfu vínveitingaleyfa. Hins vegar má gera ráð fyrir auknum fjölda umsókna um vínveitingaleyfi í kjölfar lækkunar á gjaldskrá sem og auknum umsvifum í kjölfar útgáfu fleiri vínveitingaleyfa, sem mun koma til móts við tekjufall ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Samkeppnismat OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði: 438 tillögur til úrbóta. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 10. nóvember 2020.


Síðast breytt 21.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.