Samantekt um þingmál

Staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál á 152. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja í veitingarekstri vegna áhrifa af heimsfaraldri kórónuveiru. Að styrkja viðspyrnu fyrirtækjanna þegar sóttvarnarráðstöfunum verður aflétt.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að fyrirtækjum í veitingarekstri með meginstarfsemi í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma vegna sóttvarnarráðstafana verði veitt heimild til frestunar staðgreiðslu á afdreginni staðgreiðslu af launum og tryggingagjalds á allt að tveimur gjalddögum á tímabilinu 1. janúar til 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á fjóra gjalddaga. Þá er lagt til að frestur til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvembermánaðar 2021 verði framlengdur til 1. mars 2022 en umsóknarfresturinn rann út 31. desember 2021.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
Lög um tryggingagjald, nr. 113/1990.
Lög um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020.
  • Skylt mál: Skattar og gjöld, 211. mál (efnahags- og viðskiptanefnd) á 152. þingi (20.01.2022)

Kostnaður og tekjur

Áætlað er að frestun á staðgreiðslu launa og tryggingagjalds hafi í för með sér óveruleg áhrif á ríkissjóð. Ætla má að heildaráhrif af framlengingu umsóknarfrests viðspyrnustyrks vegna a.m.k. 40% tekjufalls í nóvember 2021 verði ekki meiri en 150 milljónir kr. Talsverð óvissa ríkir þó um matið þar sem ekki liggur fyrir endanlegt umfang þeirra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember sem sótt var um fyrir 1. janúar 2022. 

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Stöðum sem falla undir flokk IV skv. 3. mgr. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er einnig heimiluð frestun á afdreginni staðgreiðslu af launum og tryggingagjaldi. Samþykkt var að gjalddagar greiðslna sem frestað er samkvæmt 1. og 2. gr. frumvarpsins eins og það var lagt fram skuli verða sex í stað fjögurra.


Síðast breytt 14.02.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.