Samantekt um þingmál

Málefni innflytjenda

271. mál á 152. löggjafarþingi.
Félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

Markmið

Að lögfesta ný verkefni Fjölmenningarseturs sem því er ætlað að framkvæma vegna nýrrar samræmdrar móttöku flóttafólks.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að Fjölmenningarsetri verði falið víðtækara hlutverk vegna samræmdar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks, t.d. með útgáfu leiðbeininga um gerð einstaklingsmiðaðra áætlana, gátlista, reglulegri upplýsingamiðlun og stuðningi í erfiðum eða flóknum einstaklingsmálum, auk þess sem stofnuninni er falið að halda fræðslufundi. Þá er gert ráð fyrir að Fjölmenningarsetri verði falið að halda utan um boð móttökusveitarfélaga um búsetu og þjónustu byggt á þeim upplýsingum sem fyrir liggja og m.t.t. ákveðinna þátta, s.s. möguleika á námi, aðgangi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifæra og samgangna. Jafnframt eru lagðar til breytingar á heimildum Fjölmenningarseturs til vinnslu persónuupplýsinga og á skipan innflytjendaráðs.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um um um málefni innflytjenda, nr. 116/2012.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að ný verkefni Fjölmenningarseturs kalli á þrjú viðbótarstöðugildi auk starfstengds kostnaðar sem nemur árlega um 40,8 milljónum kr. ásamt einskiptiskostnaði vegna búnaðarkaupa að fjárhæð 1 milljón kr. Kostnaðarauki ríkissjóðs er að fullu fjármagnaður innan ramma málefnasviðs 29.

Aðrar upplýsingar

Samræmd móttaka flóttafólks. Skýrsla nefndar. Félagsmálaráðuneytið, janúar 2019.
Síðast breytt 18.02.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.