Samantekt um þingmál

Almenn hegningarlög

318. mál á 152. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að bregðast við tilmælum Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar um að efla getu íslenskra stjórnvalda til að koma upp um, rannsaka og saksækja erlend mútubrot.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem taka til mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna. Helstu efnisatriði frumvarpsins lúta að breytingum á 264. gr. a laganna í því skyni að taka af allan vafa um að ákvæðið nái einnig til mútubrota er beinast að starfsmönnum erlendra fyrirtækja í opinberri eigu með sama hætti og 2. mgr. 109. gr. nær almennt til erlendra opinberra starfsmanna. Einnig er lagt til að refsihámark vegna brota gegn 109. og 264. gr. a verði sex ár. Þá er lagt til að fyrningarfrestur refsiábyrgðar lögaðila vegna brota gegn 109. gr. og 1. mgr. 264. gr. a verði hækkaður úr fimm árum í tíu. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Almenn hegningarlög, nr. 19/1940.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingu sem var tæknilegs eðlis.

Aðrar upplýsingar




Síðast breytt 28.09.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.