Samantekt um þingmál

Fjarskipti

461. mál á 152. löggjafarþingi.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði. Að stuðla að því, eftir því sem unnt er, að öllum landsmönnum og fyrirtækjum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum, þ.m.t. föstum og þráðlausum netum.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi regluverks á sviði fjarskipta með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972. Gildandi regluverk er að mörgu leyti úrelt vegna framfara í tækni og þjónustu og uppfærsla regluverksins til samræmis við meginland Evrópu á að stuðla að framförum, fjárfestingum, samkeppni, hagkvæmni, samnýtingu og neytendavernd.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um fjarskipti, nr. 81/2003. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögum um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs verði um 165 milljónir kr. á ári.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2018/1972/ESB frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti („Fjarskiptatilskipunin“ eða „Kóðinn“).

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009.


Síðast breytt 24.02.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.