Samantekt um þingmál

Skipalög

208. mál á 151. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að stuðla að öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum.

Helstu breytingar og nýjungar

Með frumvarpinu er ekki verið að leggja til umfangsmiklar breytingar á gildandi reglum um skip heldur að sameina lög í einn aðgengilegan lagabálk. Þá er ætlunin að færa tiltekin ákvæði úr lögum og í stjórnvaldsfyrirmæli. Einnig er lagt til að lögfest verði ákvæði um stjórnvaldssektir.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um einkenning fiskiskipa, nr.  31/1925, lög um skráningu skipa, nr.  115/1985, lög um skipamælingar, nr.  146/2002, lög um eftirlit með skipum, nr.  47/2003, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Olíumöl innflutning á olíupramma, nr.  4/1977, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum, nr.  27/1989, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Slysavarnafélagi Íslands að flytja inn björgunarbát, nr.  23/1993, og lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma, nr.  24/1993.
  • Skylt mál: Skipagjald, 313. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 151. þingi (17.11.2020)

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum er varða skráningu fiskiskipa, afskráningu skips, innflutning skipa, skoðunarskyldu, samráð vegna óhaffærs skips, verndun safnskipa og stjórnvaldssektir.


Síðast breytt 03.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.