8.9.2014

Aðgengilegri ræðustóll fullbúinn í þingsal

Fulltrúar Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra færðu Alþingi í dag hamingjuóskir og blóm í tilefni þess að nýr og aðgengilegri ræðustóll er nú fullbúinn í þingsal Alþingis. Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, tók við hamingjuóskunum fyrir hönd Alþingis og sagði að þingheimur gleddist yfir því að nú væri vonandi því markmiði náð að ræðustóllinn væri aðgengilegur fyrir alla Íslendinga.

Nýi ræðustóllinn verður formlega tekinn í notkun við þingsetningu 9. september 2014 en unnið hefur verið að hönnun hans og smíði undanfarið ár. Ræðustóllinn sem er aðgengilegur fólki í hjólastól stendur aðeins framar í salnum en ræðustóllinn sem fyrir var og því er rýmra milli hans og forsetastúkunnar, sem var færð nær veggnum. Í ræðustólnum er búnaður til að hækka hann og lækka. Einnig má lækka pall ræðustólsins svo hægt sé að komast í hann í hjólastól án hindrunar.

Mikil samvinna hefur verið um þetta verkefni á þinginu, bæði við forsætisnefnd þingsins og formenn þingflokka. Jafnframt var leitað eftir ráðgjöf ýmissa hlutaðeigandi aðila. Stálsmiðjan-Framtak smíðaði stólinn.