5.10.2020

Áhrif hertra smitvarnaaðgerða á starfsemi Alþingis

Hertar aðgerðir vegna COVID-19 sem tóku gildi um miðnætti í gærkvöld hafa áhrif á starfsemi Alþingis, jafnvel þó að störf Alþingis séu undanskilin fjöldatakmörkunum, samkvæmt reglugerð sem heilbrigðisráðherra hefur staðfest. Í orðsendingu forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, til þingmanna og starfsfólks er minnt á að eins metra reglan sé áfram í gildi og þar sem ekki sé hægt að halda þeirri fjarlægð sé skylt að nota andlitsgrímu.

Þrátt fyrir að störf Alþingis séu undanskilin fjöldatakmörkunum er mælst til þess að einungis þeir þingmenn mæti í þinghúsið sem ætli að taka þátt í umræðum hverju sinni eða eigi af öðrum ástæðum erindi þangað sem kalla á viðveru í þinghúsinu.

Starfsfólk skrifstofu Alþingis hefur jafnframt fengið þau tilmæli frá viðbragðsteymi Alþingis að vinna heima næstu tvær vikur nema þau sem starfa sinna vegna verða að vera á svæðinu. Starfsfólk sem þarf að vera á starfsstöð er hvatt til að gæta fyllstu varkárni varðandi smitvarnir og nota andlitsgrímur ef ekki er hægt að tryggja tilskilda fjarlægð á milli fólks.

Brýnt er fyrir þingmönnum og starfsfólki að tilkynna skrifstofustjóra eða öryggisstjóra ef það smitast af kórónuveirunni eða þarf að fara í sóttkví.