6.9.2018

Alþingi á LÝSU á Akureyri 7.–8. september

Skrifstofa Alþingis tekur þátt í LÝSU, rokkhátíð samtalsins (áður Fundur fólksins), sem fram fer í Hofi á Akureyri dagana 7.–8. september. Starfsmenn skrifstofunnar standa vaktina á Umræðutorgi og kynna starfshætti Alþingis. Einnig verður gestum boðið í sófaspjall.

Á föstudeginum kl. 14:30–15:00 verður yfirskrift sófaspjallsins „Hvert er hlutverk Alþingis?“ Þá verður rætt um hlutverk löggjafarsamkomunnar en meginverkefni Alþingis er lagasetning. Enn fremur fer þingið með viðamikið eftirlitshlutverk með ríkisstjórn og stjórnsýslu. Í sófanum verður einnig rætt um hvernig skrifstofa Alþingis annast stjórnsýslu þingsins og tryggir faglega umgjörð um starfsemi þess, þannig að þingmenn geti sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað samkvæmt stjórnarskrá, þingsköpum og öðrum lögum.

 „Hvernig getur þú haft áhrif á gang mála á Alþingi?“ er yfirskrift sófaspjallsins á laugardag kl. 14:00–14:30. Þá verða gestir fræddir um hvernig þeir geti haft áhrif á gang mála á Alþingi. Til dæmis með því að neyta kosningarréttar síns, taka þátt í starfi stjórnmálaflokka, stéttarfélaga, hagsmunasamtaka eða áhugamannasamtaka, hafa samband við alþingismenn og þingnefndir, senda inn skriflegar umsagnir um mál sem eru til meðferðar hjá þingnefndum, hafa samband við sveitarstjórnarfólk og skrifa í fjölmiðla.