26.8.2019

Alþingi kemur saman til fundar á miðvikudag

Alþingi kemur saman til fundar miðvikudaginn 28. ágúst. Á dagskrá fundarins er framhald síðari umræðu um þingsályktun um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).
 
Fimmtudaginn 29. ágúst verða á dagskrá síðari umræða um þingsályktun um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 2. umræða um frumvarp um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku) og 2. umræða um frumvarp um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði).
 
Atkvæðagreiðslur um öll málin fara síðan fram mánudaginn 2. september.
 
Á dagskrá þingfundar á fimmtudeginum að loknum umræðum um orkupakkamálin þrjú verður einnig frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (skattlagning tekna af höfundaréttindum) og 2. umræðu um það lokið.
 
Þingfundur mánudaginn 2. september hefst á atkvæðagreiðslum um öll málin. Að því loknu verður settur nýr fundur með 792. 782. og 762. máli (3. umræða) og atkvæðagreiðslum í þeim.
 
Þingfundir hefjast kl. 10:30 alla dagana.