12.9.2017

Ávarp forseta Alþingis

Ávarp forseta Alþingis, Unnar Brár Konráðsdóttur, við setningu Alþingis 12. september 2017:

 

Háttvirtir alþingismenn. Ég býð alþingismenn, starfsmenn þingsins og gesti við þingsetningarathöfnina velkomna. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alþingismenn á nýju löggjafarþingi. Sjálf hef ég góðar væntingar til þessa þings og hef fulla trú á því að samstarf okkar verði áfram með þeim ágæta brag sem einkenndi síðasta vetur þegar allir lögðu sig fram um að eiga gott samstarf í þágu lands og þjóðar.

Forsætisnefnd Alþingis gekk frá starfsáætlun þingsins fyrir 147. löggjafarþing um miðjan ágúst sl. að höfðu samráði við ríkisstjórn og formenn þingflokka. Starfsáætlunin er með sama sniði og á undanförnum þingum. Ég ítreka þá afstöðu mína að það er mikilvægt að starfsáætlunin sé marktæk vinnuáætlun Alþingis. Það er þýðingarmikið að hver og einn alþingismaður geti á grundvelli hennar og vikuáætlana skipulagt störf sín vel.

Starfsáætlunin tekur mið af því að sveitarstjórnarkosningar eru í lok maí. Venja er að Alþingi skapi svigrúm fyrir baráttu flokka og félaga fyrir kosningar til sveitarstjórna. Gert verður hlé á störfum þingsins í tvær vikur um og upp úr miðjum maí og þing kemur síðan saman að nýju eftir kjördag til að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem út af kunna að standa.

Á næsta ári munum við Íslendingar fagna því að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Það verður eitt af verkefnum þingsins í vetur að undirbúa hátíðarfund á Þingvöllum. Hátíðarfundurinn er fyrirhugaður 18. júlí nk., en þann dag fyrir einni öld var samningnum um fullveldi Íslands lokið og hann undirritaður hér í þessu húsi. Þingfundurinn er hugsaður sem annar aðalatburður afmælisársins, en samkvæmt ályktun Alþingis á ríkisstjórnin að efna til hátíðarhalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Undirbúningur þess atburðar er í höndum ríkisstjórnarinnar.

Auk þessara tveggja meginviðburða afmælisársins, annars vegar á vegum Alþingis og hins vegar á vegum ríkisstjórnar, hefur sú nefnd sem Alþingi kaus og framkvæmdastjóri hennar unnið að ýmsum öðrum viðburðum og verkefnum sem dreifast yfir afmælisárið og miða að því að þátttaka landsmanna verði sem víðtækust í þessum hátíðarhöldum sem eru svo sannarlega markverð og mikilvæg.

Ég skora á þingheim að leggja sig fram um að ná góðri samstöðu um mál sem sameinar okkur sem þjóð þegar kemur að því að ákveða hvað verður til afgreiðslu á hátíðarfundinum.

Gera verður ráð fyrir því að Alþingi komi saman í Reykjavík daginn fyrir Þingvallafundinn og ljúki fyrri umræðu um þingmálið og gangi frá ýmsum formsatriðum.

Ég vil skýra frá því að þegar forsætisnefnd afgreiddi í janúar sl. árlega verkefnaáætlun fyrir alþjóðastarf Alþingis 2017 var lögð sérstök áhersla á að tvö mál fengju aukinn forgang í alþjóðastarfi þess. Það eru norðurskautsmál og jafnréttismál. Í báðum þessum málaflokkum stöndum við Íslendingar sterkt að vígi og getum lagt verulega af mörkum á alþjóðavettvangi. Fyrstu skrefin í þessum efnum voru stigin með því að styðja aukna þátttöku Vestnorræna ráðsins í starfi Norðurskautsráðsins og með því að styrkja ráðstefnu leiðtogakvenna í stjórnmálum sem haldin verður í Reykjavík 28.–30. nóvember nk.

Nú þegar nýtt löggjafarþing er að hefjast er þarft að rifja upp hvers konar stofnun Alþingi er. Alþingi er það sérstæð stofnun að það ætti auðvitað enginn að fara í grafgötur um hvað Alþingi er. Ég held þó að einmitt vegna þess að Alþingi á sér enga samsvörun við neina aðra stofnun í íslensku samfélagi sé þeim mun mikilvægara að við veltum hlutverki hennar og verkefnum fyrir okkur einstaka sinnum á stundum sem þessari.

Í mínum huga skipta hér fjögur atriði mestu máli.

Hið fyrsta er að Alþingi er fulltrúasamkunda, öllu öðru fremur, þar sem saman koma fulltrúar ólíkra viðhorfa og hagsmuna í þjóðfélaginu með umboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd íbúa þessa lands. Alþingi er því pólitísk stofnun sem ætlað er að leggja pólitískt mat á hlutina. Alþingi er ekki sérfræðingastofnun heldur fulltrúastofnun sem allir eiga að geta tekið sæti á, óháð kyni, menntun, aldri, búsetu og trúarbrögðum. Sem fulltrúar almennings eru alþingismenn þannig bærir til að fjalla um og taka ákvarðanir um öll mál óháð hagsmunatengslum. Þingmenn eru ekki bundnir af hæfisreglum hliðstæðum þeim sem gilda um stjórnsýsluna eða dómendur í störfum sínum og geta tekið þátt í meðferð og afgreiðslu allra mála á Alþingi að því undanskildu að þeir geta ekki greitt atkvæði með fjárveitingu til sjálfra sín.

Annað atriði er löggjafarstarf okkar á Alþingi. Sem fulltrúum landsmanna er okkur ætlað að taka ákvarðanir um þær sameiginlegu leikreglur sem skulu gilda í okkar samfélagi. Okkar hlutverk er þannig að hafa síðasta orðið um það hvaða lög skuli gilda í þessu landi. En þar sem við erum ekki kjörin sem sérfræðingar til þessara verka er eðlilegt að samning lagafrumvarpa sé í höndum sérfræðinga sem vinna slík verk undir pólitískri leiðsögn. Hér gildir því hið sama og í öllum öðrum lýðræðisríkjum, að það er framkvæmdarvaldið sem hefur forgang um hina sérfræðilegu vinnu við gerð lagafrumvarpa. Að því leyti er Alþingi ekkert ólíkt öðrum þingum. Líkt og í öðrum þingum í þingræðisríkjum er það verkefni þingsins að yfirfara og leggja mat á og eftir þörfum endurskoða þá vinnu sem unnin hefur verið á vettvangi framkvæmdarvaldsins. Aðstaða Alþingis til að sinna þessu verkefni hefur batnað mikið á síðustu tveimur til þremur áratugum enda þurfum við að leggja metnað okkar í að sinna því verki vel og eigum við að leggja allt kapp á að efla Alþingi enn frekar að þessu leyti. En þrátt fyrir að löggjafarstarf okkar sé um margt líkt og gerist í öðrum þingum sker Alþingi sig úr að einu leyti, hér taka þingmál meiri breytingum en í öðrum þingræðisríkjum.

Þriðja atriðið sem ég vil víkja að er að Alþingi er mikilvægasti pólitíski umræðuvettvangur landsins því að hér eiga sjónarmið flestra landsmanna sína fulltrúa. Um þessi ólíku sjónarmið er tekist á í umræðum á Alþingi. Það er því eðlilegt að umræður setji stóran svip á störf Alþingis. Þó að umræðan snúist að mestu leyti um þau lög sem við setjum skipar almenn þjóðmálaumræða líka sinn sess í dagskrá þingsins enda er nauðsynlegt að þingið geti brugðist með skjótum hætti við þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni. Slík þjóðmálaumræða þarf að mínu mati að fá meira rúm í störfum Alþingis. Umræðurnar eru líka mikilvægt tæki þingmanna í stjórnarandstöðu til að veita ríkisstjórn aðhald og vekja athygli almennings á því sem miður kann að fara. Það má hins vegar með réttu gagnrýna okkur fyrir ýmislegt í umræðuháttum hér í sal Alþingis og margt má þar bæta. Til þess stendur líka minn vilji og ég treysti því að vaxandi skilningur sé á því að slíkt þurfi að gerast.

Ég vil líka nefna að það er mikilvægt að umræður í þingsal fari fram með góðri reglu og vil ég í því sambandi vísa í athyglisverðan dóm mannréttindadómstólsins í Strassborg á síðasta ári um tjáningarfrelsi þingmanna sem taki mið af hlutverki þjóðþingsins sem fulltrúasamkomu. Þingmönnum ber því að virða rétt annarra þingmanna til þess að tjá sig um einstök mál og að mál þokist fram. Sú skylda hvílir á forseta Alþingis að gæta þess að eðlilegt jafnvægi sé á milli góðrar reglu, tjáningarfrelsis þingmanna og að þingstörf gangi vel fyrir sig.

Það síðasta sem ég vil víkja að um hlutverk Alþingis er að það leiðir af eðli þingsins að við erum ekki í daglegri framkvæmdasýslu. Slíkt felum við öðrum; ráðherrum sem stýra framkvæmdarvaldinu í okkar umboði. Engu að síður er það á okkar ábyrgð sem æðsta handhafa þjóðfélagsvaldsins að tryggja að sú sýslan fari fram með réttum hætti. Eftirlit Alþingis með ríkisstjórn og stjórnsýslu hennar skiptir því gríðarlega miklu máli. Eðli máls samkvæmt er það svo í þingræðisríkjum að þetta eftirlit kemur fyrst og fremst í hlut stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma þó að ábyrgð stjórnarþingmanna sé einnig mikil. Við höfum tvær stofnanir til að aðstoða okkur, Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Með þetta í huga hefur ýmsum ákvæðum þingskapa verið breytt á umliðnum árum til að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis og þá ekki síst til að gera aðstöðu minni hlutans á Alþingi betri til að sinna þessu verki.

Það sem ég hef hér nefnt undirstrikar að verkefni þessar æðstu stofnunar landsins eru bæði mikilvæg og fjölbreytt. Ég tel hins vegar að umræða um hlutverk og verkefni Alþingis eigi ekki aðeins að fara fram á þeim tíma sem við heyjum kosningabaráttu. Ég hef því fullan hug á því að eiga samtal við fólkið í landinu um hvað því finnst um Alþingi, um starfshætti þess, hvernig það ætti að starfa öðruvísi o.s.frv. Þessi stofnun og við sem hér sitjum verðum að slá í takt við þjóðina. Ég hyggst því efna til opinna funda með landsmönnum um þetta efni á komandi mánuðum. Mér finnst við hæfi að forseti Alþingis eigi slíkt samtal nú þegar við brátt fögnum 100 ára afmæli frjáls og fullvalda Íslands.

Þessum þingfundi verður brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra að ganga fremstan með mér út úr salnum til Skála. Þessum fundi verður nú frestað til kl. 16.

Upptaka af ávarpi forseta Alþingis.

Forseti Alþingis flytur ávarp við þingsetningu 147. löggjafarþingsForseti Alþingis Unnur Brá Konráðsdóttir flytur ávarp á þingsetningarfundi 12. september 2017. ©Bragi Þór Jósefsson