14.12.2017

Ávarp forseta Alþingis

Ávarp forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, við setningu Alþingis, 148. löggjafarþings 14. desember 2017

 

Háttvirtir alþingismenn. Ég vil þakka ykkur það traust sem þið hafið sýnt mér með því að kjósa mig til embættis forseta Alþingis. Ég mun gera mitt besta til að verða þess trausts verður og leggja mig fram sem forseti gagnvart öllum þingmönnum jafnt. Sá stuðningur sem ég fékk í kosningunni til embættisins er mér frekari hvatning í þeim efnum. Ég á mér þá ósk okkur til handa að hér takist sem best samstarf milli allra hv. alþingismanna og allra þingflokka um þau verkefni sem þjóðin hefur falið okkur í nýafstöðnum kosningum. Ég vænti einnig góðs samstarfs við hið ágæta starfsfólk Alþingis.

Ég býð alla alþingismenn velkomna til starfa á 148. löggjafarþingi. Sérstakar hamingjuóskir færi ég þeim alþingismönnum sem nú setjast á þing í fyrsta sinn og bið þeim velfarnaðar í störfum. Ég óska einnig þeim sem stíga nú sín fyrstu spor í ráðherraembættum allra heilla.

Það skyggir nokkuð á þessa þingsetningu að hlutur kvenna í þingmannahópnum hefur minnkað verulega. Konur skipa nú 38% þingheims en voru 48% eftir kosningarnar 2016 sem vissulega var þá besti árangur fram að því. Á einu ári féllum við úr fjórða sæti á heimsvísu niður í það sautjánda. Ég vona að þetta bakslag verði stjórnmálaflokkunum hvatning til að efla hlut kvenna á framboðslistum og skapa þeim skilyrði til stjórnmálaþátttöku enda enginn hörgull á efnilegum stjórnmálamönnum meðal kvenna um allt land.

Það er harla óvenjulegt að koma saman til þingsetningar í jólamánuðinum í annað skipti með ársmillibili en undanfarin ár hafa heldur ekki verið venjulegir tímar í okkar samfélagi. Það umrót og sá tilfinningahiti sem einkennt hefur stjórnmálin allt frá fjármálahruninu 2008 minnir um sumt á þá ólgu sem var í íslenskum stjórnmálum síðustu ár sjálfstæðisbaráttunnar á fyrstu áratugum 20. aldar. Eftir alþingiskosningarnar árið 1916, tveimur árum áður en Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki, voru þannig átta þingflokkar á Alþingi. Á þeim rúmu 100 árum sem liðin eru síðan hefur það þingflokkamet ekki verið jafnað fyrr en nú. Frá alþingiskosningunum 2009 hefur þingflokkum fjölgað um einn við hverjar kosningar, þeir urðu fimm árið 2009, sex árið 2013, sjö árið 2016 og loks átta á þessu ári.

Slíkum fjölda flokka á Alþingi fylgja bæði kostir og gallar. Alþingi endurspeglar vissulega betur þau pólitísku sjónarmið sem uppi eru í þjóðfélaginu en um leið er hætt við að erfiðlegar geti gengið að mynda starfhæfa ríkisstjórn nema flokkar sýni pólitískan sveigjanleika og beygi sig fyrir þeim þjóðarvilja sem úrslit kosninganna sýna. Hin margræða útkoma alþingiskosninganna hefur því leitt til þeirrar sögulegu niðurstöðu að mynduð hefur verið ríkisstjórn endanna á milli í íslenskum stjórnmálum sem ekki hefur gerst í rúm 70 ár. Héðan úr forsetastóli er nýrri ríkisstjórn óskað velfarnaðar í störfum.

Ég geri ráð fyrir að öllum þingheimi sé líkt farið og mér, að gleðjast fyrir hönd Alþingis yfir þeirri sérstöku áherslu sem lögð er á að efla Alþingi í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Ég veit ekki til þess að slík áhersla hafi áður komið fram, a.m.k. ekki með jafn miklum þunga og nú, og líklega aldrei verið hluti af heiti stjórnarsáttmálans en þar er tekið fram að hann sé sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Fyrir hönd Alþingis fagna ég því að styrkja eigi löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.

Sem starfandi forseti Alþingis fram að þingsetningu kom ég strax á framfæri tillögum um þetta efni til ríkisstjórnarinnar. Fyrstu skref í þessa átt verða stigin strax á næsta ári eins og sést í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í dag. Aukinn fjárhagslegur stuðningur við Alþingi mun m.a. birtast í eflingu þeirrar þjónustu sem nefndasvið veitir þingnefndum, auk þess sem framlög til sérfræðiþjónustu við þingflokka verða aukin og staða þingflokka bætt með ráðningu aðstoðarmanna. Um nánari útfærslu á þessum fyrstu skrefum til eflingar þinginu sem tekin verða strax á næsta ári þurfum við að sjálfsögðu að eiga náið samstarf á vettvangi formanna þingflokka og í forsætisnefnd þegar hún hefur verið kosin.

Í þessari upptalningu hef ég þó ekki nefnt það atriði sem telja má hvað mikilvægast fyrir Alþingi, en það er áframhaldandi stuðningur við að brátt rísi á Alþingisreit skrifstofubygging sem leysi af hólmi það sumpart óhentuga leiguhúsnæði á tvist og bast hér í Kvosinni sem Alþingi hefur þurft að notast við um langt skeið. Það þarf ekki að segja þingmönnum hversu mikilvægt það er að hafa alla starfsemi Alþingis og vinnuaðstöðu þingmanna hér á reitnum þar sem húsnæði þess verður samtengt. Slík nútímaleg og sérhönnuð vinnuaðstaða er ekki lítill liður í því að styrkja Alþingi. Ég bind vonir við að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir upp úr miðju næsta ári.

Sú umræða sem konur í fjölmörgum starfsgreinum, og þar á meðal innan stjórnmálanna, hafa fært upp á yfirborðið undir yfirskriftinni #metoo eða #ískuggavaldsins síðustu vikurnar um óviðeigandi hegðun, kynferðislega áreitni og yfir í hreint ofbeldi hefur engan látið ósnortinn. Sá ómenningarheimur sem við höfum fengið að sjá inn í, og þar eru stjórnmálin ekki undanskilin, kallar á viðbrögð. Mér barst í vikunni bréf, undirritað af tæplega 40 karlkyns þingmönnum og ráðherrum, þar sem viðbrögð eru reifuð og hafði ég reyndar áður átt fund með forsvarsmönnum karla innan þings sem strax tóku frumkvæði að viðbrögðum. Vilji er fyrir því að efna til sérstaks fundar meðal þingmanna snemma á næsta ári um þetta mál. Þá hef ég þegar falið lagaskrifstofu Alþingis að hefja undirbúning og skoðun á því hvernig best verður að taka á þessum málum á vettvangi þingsins, ekki síst með því að endurskoða siðareglur þingmanna þannig að þær taki með skýrum hætti til þess sem ekki telst við hæfi í þessum efnum.

Á næsta ári fögnum við Íslendingar því að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Af því tilefni er fyrirhugaður hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí nk., en þann dag fyrir einni öld var samningnum um fullveldi Íslands lokið og hann undirritaður hér í þessu húsi. Fundur á Þingvöllum undir beru lofti er sérstök upplifun og fremur sjaldgæfur atburður sem nær allir núverandi þingmenn munu þarna upplifa í fyrsta sinn og mögulega einhverjir í eina sinn á sínum þingferli. Þá er í höndum ríkisstjórnarinnar að standa fyrir hátíðahöldum 1. desember á næsta ári þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi.

Auk þessara tveggja meginviðburða afmælisársins hefur afmælisnefnd sem Alþingi kaus og framkvæmdastjóri hennar unnið að ýmsum viðburðum og verkefnum sem dreifast yfir afmælisárið og miða að því að þátttaka landsmanna verði sem víðtækust í þessum hátíðahöldum. Í þessu skyni hafa 100 verkefni verið styrkt um land allt en til viðbótar má búast við því að verkefnum og atburðum fjölgi á dagskránni eftir því sem kemur inn á afmælisárið sjálft.

Það eru því spennandi tímar fram undan, spennandi ár og spennandi dagar, háttvirtir alþingismenn. Okkar bíða ærin verkefni sem við höfum rétt um tíu virka daga til að leysa af hendi þannig að ríkinu hafi verið sett fjárlög og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir gerðar áður en nýja árið gengur í garð. Alþingi stóðst prófið við óvenjulegar aðstæður í desembermánuði fyrir ári og ég er sannfærður um að það muni gera það aftur nú. En til þess þarf gríðarmikla vinnu á skömmum tíma og góðan samstarfsvilja.

Að þessu sögðu ítreka ég þakkir mínar fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt. Mér þykir vænt um það, rétt eins og mér þykir vænt um þennan minn vinnustað í hartnær hálfan mannsaldur. Ég vænti góðrar samvinnu við þingheim allan um þau mikilvægu verkefni sem okkar bíða á næstunni og þá veit ég að starfsfólk Alþingis mun ekki láta sitt eftir liggja, en á því mun einnig mæða mikið næstu daga.

Forseti Alþingis flytur ávarp við þingsetningu 148. löggjafarþings