1.10.2020

Ávarp forseta Alþingis við setningu 151. löggjafarþings

Ég býð hv. alþingismenn og gesti Alþingis við þingsetningarathöfnina velkomna en að þessu sinni eru gestir mun færri en venjulega vegna kringumstæðna. Sóttvarnaráðstafanir og stækkað þingfundarsvæði gera það að verkum að við getum ekki tekið á móti gestum sem alla jafna er boðið til athafnarinnar, svo sem fyrrverandi forsetum Alþingis, hæstaréttardómurum og erlendum sendimönnum. Ég færi þeim öllum bestu kveðjur Alþingis og vonast til að aðstæður verði aðrar og betri að ári. Ég vænti þess að við alþingismenn munum eiga gott og uppbyggilegt samstarf á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til heilla. Sömuleiðis heilsa ég starfsfólki Alþingis sem ég veit, og við öll, af langri reynslu að mun leggja sig fram og gera sitt ýtrasta til að starfið hér á þingi verði árangursríkt.

Við komum nú saman til setningar nýs löggjafarþings rúmum þremur vikum síðar en þingsköp kveða á um. Ástæðan fyrir því, líkt og svo mörgu öðru þessa daga og misseri, er heimsfaraldur kórónuveiru. Efnahagsleg áhrif faraldursins gerðu það að verkum að lengri tíma var óskað til undirbúnings fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar, sem verða fyrstu viðfangsefni nýs löggjafarþings. Jafnframt flytur forsætisráðherra stefnuræðu sína í kvöld á þingsetningardegi, sem er óvenjulegt en þess eru þó dæmi fyrr úr þingsögunni.

Forsætisnefnd Alþingis gekk frá starfsáætlun fyrir 151. löggjafarþing fyrr í þessum mánuði að höfðu samráði við ríkisstjórn og formenn þingflokka. Auðvitað er mikilvægt að starfsáætlunin sé marktæk vinnuáætlun Alþingis og þýðingarmikið að þingmenn geti á grundvelli hennar og vikuáætlana skipulagt störf sín vel. Þó verðum við að hafa í huga að áhrifa kórónuveirunnar gætir enn og ekki er útilokað að nýjar bylgjur smita komi upp í vetur sem kunna að raska starfsáætluninni. Ég vil af því tilefni ítreka þakkir til alþingismanna og starfsmanna okkar fyrir að það tókst að halda Alþingi starfhæfu á krefjandi og erfiðum tímum síðastliðinn vetur og síðastliðið vor. Það var ekki sjálfgefið og er þakkarvert. Einnig vek ég athygli á því í þessu sambandi að komi til endanlegrar afgreiðslu á frumvarpi eða frumvörpum um breytingar á stjórnarskrá má gera ráð fyrir stuttu þinghaldi af þeim sökum síðsumars miðað við boðaðan kjördag alþingiskosninga 25. september 2021.

Síðasta löggjafarþing markaðist talsvert af áhrifum heimsfaraldursins. Samkomulag varð um að takmarka fjölda þingmála og síðan þingmanna í sal til að hægt væri að gæta fjarlægðarmarka og atkvæðagreiðslur fóru fram með óvenjulegum hætti um langt skeið. Síðar var þingfundarsvæði stækkað og við þær aðstæður starfar þingið nú, þ.e. þingmenn eiga sæti í fjórum rýmum til hliðar við þingsalinn sjálfan, tveimur á hvora hönd. Einnig hafði heimsfaraldurinn mikil áhrif á alþjóðastarf Alþingis sem lagðist einfaldlega af í hefðbundinni mynd og hefur farið fram á fjarfundum stærstan hluta ársins. Viðbúið er að svo verði áfram enn um sinn. Einnig þurfti að leita afbrigða frá þingsköpum svo fastanefndir þingsins væru ályktunarbærar á fjarfundum.

Forsætisnefnd Alþingis mun leggja fram frumvarp til breytinga á þingsköpum til að tryggja að til staðar verði varanleg heimild nefnda til að nota fjarfundi við sérstakar kringumstæður. Einnig samþykkti forsætisnefnd einróma fyrr í þessum mánuði að standa að framlagningu frumvarps um breytingu á þingsköpum með það að markmiði að tryggja sem jafnastan hlut kynja í fastanefndum Alþingis, eins og kynjahlutföll hér frekast leyfa, og í nefndum og ráðum sem Alþingi kýs. Viðameiri endurskoðun þingskapa er í höndum sérstakrar nefndar og kann að vera að frumvarp eða frumvörp um frekari breytingar verði lögð fram á Alþingi á komandi þingvetri.

Þá hafa formenn stjórnmálaflokkanna nú til skoðunar frumvarp um ný kosningalög sem marka tímamót og er vonandi að góð samstaða geti orðið um það mál. Ný kosningalög, hljóti frumvarpið brautargengi, verða heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga, þ.e. kosninga til Alþingis, kosninga til sveitarstjórna, um framboð og kjör forseta Íslands og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Fjölmörg nýmæli eru í frumvarpinu sem gera alla framkvæmd kosninga einfaldari og skilvirkari.

Hv. þingmenn. Alþingi er um margt einstök stofnun. Hér er einstakt samfélag. Alþingi er vettvangur þjóðkjörinna fulltrúa sem með löggjafarstarfi sínu og öðrum ákvörðunum marka stefnu og setja mikilvægustu leikreglur samfélagsins. Alþingi er mikilvægasti umræðuvettvangur stjórnmála og þjóðmálaumræðu í landinu. Hjá Alþingi liggur fjárveitinga- og fjárstjórnarvaldið og síðast en ekki síst gegnir Alþingi afar mikilvægu eftirlits- og aðhaldshlutverki og getur hlutast til um rannsókn mála. Á sama tíma er þingið vinnustaður starfsfólks skrifstofunnar. Við öll sem hér erum, kjörnir fulltrúar sem starfsfólk, unnum þessari elstu og æðstu stofnun þjóðarinnar og viljum henni hið besta. Margt er hér til fyrirmyndar og yfirleitt unnið mikið starf og vandað. Það er til að mynda fagnaðarefni að í síðustu könnun um stofnun ársins jókst starfsánægja á mælikvarða allra lykilþátta könnunarinnar meðal starfsfólks, þar með talið upplifun af jafnrétti innan vinnustaðar. Þetta geta þingmenn og starfsmenn kynnt sér betur á nýjum innri vef Alþingis, Hakinu, sem var opnaður í gær. En vissulega eru einnig atriði sem betur mega fara.

Í ársbyrjun annaðist Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmd könnunar meðal starfsfólks og kjörinna fulltrúa Alþingis með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni. Niðurstöður könnunarinnar voru á margan hátt sláandi og var einhugur um að henni skyldi fylgja fast eftir. Í kjölfarið var skipuð jafnréttisnefnd Alþingis til að vinna frekar úr og fylgja eftir niðurstöðum könnunarinnar. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar þingmanna og starfsfólks, tveir varaforsetar, skrifstofustjóri Alþingis og starfsmannastjóri. Það var niðurstaða nefndarinnar, sem forsætisnefnd féllst á, að fá utanaðkomandi sérfræðinga til liðs við Alþingi til að vinna að umbótum í þessum efnum. Gengið hefur verið frá samningum og er verkefnið að hefjast. Unnið verður eftir aðferðafræði Jafnréttisvísis sem leggur áherslu á heildstæða nálgun á stöðu jafnréttismála hjá stofnunum og fyrirtækjum þar sem hagnýtar leiðir eru notaðar til að breyta og bæta menningu, samskipti og vinnulag. Ber ég þá von í brjósti að okkur takist með sameiginlegu átaki alþingismanna og starfsmanna að gera bragarbætur í þeim efnum hér á staðnum.

Þá hefur talsverður tími farið í yfirferð á gildandi siðareglum en sú vinna stendur enn yfir í forsætisnefnd.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég geta þess að Framkvæmdasýsla ríkisins hefur lokið yfirferð tilboða í byggingu skrifstofuhúss á Alþingisreitnum sem hýsa mun fundaraðstöðu fastanefnda og þingflokka ásamt því sem þar verða skrifstofur þingmanna, starfsfólks nefndasviðs og starfsfólks þingflokka. Að loknum lögboðnum fresti mun Alþingi ganga til samninga við lægstbjóðanda. Við sjáum því á komandi vetri áframhaldandi framkvæmdir á Alþingisreitnum og nýja skrifstofubyggingu taka að rísa sem leysir af hólmi húsnæði sem Alþingi hefur leigt í nokkrum byggingum handan Austurvallar.