13.9.2022

Ávarp forseta Alþingis við setningu 153. löggjafarþings

Hv. þingmenn. Ég endurtek kveðjur mínar til alþingismanna og gesta Alþingis. Það er einkar ánægjulegt að geta nú haldið þingsetningarathöfn með hefðbundnu sniði, en undanfarin tvö ár hefur heimsfaraldurinn sett okkur mörk eins og fólk þekkir. Ég býð því fyrrverandi forseta Alþingis, erlenda sendimenn, og aðra góða gesti sérstaklega velkomna.

Starfsáætlun Alþingis fyrir 153. löggjafarþing hefur verið samþykkt af forsætisnefnd og var birt á vef þingsins í síðustu viku. Störf Alþingis og hlutverk eru skilgreind í stjórnarskrá og lögum og formfesta og reglur einkenna öll störf þess. Alþingi er fyrst og fremst vettvangur lagasetningar, hér hvílir fjárveitingavaldið. Hlutverk Alþingis er jafnframt að hafa eftirlit með og veita framkvæmdarvaldinu aðhald og síðast en ekki síst er þingsalurinn vettvangur stjórnmálaumræðu þar sem takast á ólíkar hugmyndir og lífssýn. En öll leitum við sama marks, að bæta okkar ágæta samfélag til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Alþingi er elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar en við sem hér störfum höfum leitast við að hagnýta framfarir í tækni til að auðvelda störf okkar. Sem dæmi má nefna talgreini Alþingis, sem þróaður var af vísindamönnum við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík samkvæmt samningi við Alþingi frá því í október 2016. Talgreinirinn var formlega afhentur á viðburði Almannaróms um máltækni á degi íslenskrar tungu árið 2019. Hið talaða orð er vissulega kjarni starfa alþingismanna í þingsal og hér hefur hver ræða og hvert orð verið vandlega skráð og birt í Alþingistíðindum, fyrst á prenti en á síðustu árum eingöngu með rafrænum hætti. Unnið er ötullega að því að birta allt efni frá því að Alþingi var endurreist árið 1845 á vefnum althingistidindi.is.

Íslendingar hafa oft verið fljótir að tileinka sér tækninýjungar og 1. október 1952 varð Alþingi fyrst þjóðþinga í Evrópu til að treysta eingöngu á hljóðupptökur í stað þingskrifara við útgáfu ræðuhluta Alþingistíðinda. Hinn 1. október næstkomandi verða því 70 ár liðin frá því að Alþingi hóf að nota hljóðupptökur til að skrásetja ræður þingmanna. Varð þá sú breyting á í þingsalnum að þingmenn gátu ekki lengur talað úr sæti sínu en urðu að fara í ræðustól til að flytja ræður sínar svo að unnt væri að hljóðrita þær. Ræður þingmanna urðu einnig réttari heimild um umræðurnar heldur en áður hafði verið.

Af hálfu þingsins hefur metnaðarfullt starf verið unnið af þinginu á síðustu árum sem felst í því að flytja sem mest af þeim þingræðum sem eru til á segulbandsspólum yfir á stafrænt form og vista þær á vef Alþingis. Ef maður vill hlusta á hvernig þingmenn hljómuðu á sjötta áratugnum eða síðar er einfaldlega hægt að fara í æviágrip þeirra á vef Alþingis og smella á raddsýnishorn. Þetta eru ómetanlegar heimildir og sýna hversu framsýnir þingmenn voru í byrjun sjötta áratugarins og fylgdust vel með tækniþróun.

En þróun hefur einnig orðið í skipan Alþingis með auknu hlutfalli kvenna á síðustu áratugum. Að loknum síðustu alþingiskosningum var hlutfall kvenna tæp 48% og skipum við okkur í hóp þeirra þjóðþinga heims þar sem staðan er best. Er það einkar vel á þessu merkisári þegar 100 ár eru frá kjöri Ingibjargar H. Bjarnason, sem fyrst kvenna tók sæti á þingi. Kosningar fóru fram 8. júlí 1922 og þing kom saman í febrúar ári síðar. Hinn 15. febrúar næstkomandi verða því 100 ár frá því að fyrsta konan tók sæti á Alþingi og tel ég fullt tilefni til að minnast þeirra tímamóta.

Ávarp forseta Alþingis við þingsetningu 13. september 2022