13.10.2016

Ávarp forseta Alþingis við þingfrestun

Háttvirtir alþingismenn. 

Senn lýkur störfum þessa þings sem verður hið síðasta á kjörtímabilinu. Hinn 29. október nk. rennur út það umboð sem við alþingismenn fengum fyrir þremur og hálfu ári.

Það þing sem nú er að ljúka er á margan hátt óvenjulegt og jafnvel einstakt. Það hófst 8. september 2015 og lýkur í dag, 13. október 2016. Þetta er lengsta þingið talið í þingfundadögum. Þeir hafa verið 147. Það þing sem kemst næst þessu þingi í fjölda þingfundadaga er 116. þing sem hófst 17. ágúst 1992 og lauk 9. maí 1993, en þá voru þingfundadagar 131.

Þetta langa þing hefur haft ýmislegt í för með sér, m.a. hafa ráðherrar aldrei svarað, óundirbúið, jafn mörgum fyrirspurnum frá þingmönnum, 347 fyrirspurnum. Störf þingsins hafa verið á dagskrá á 64 þingfundum og af því má leiða að þingmenn hafi 960 sinnum kvatt sér hljóðs undir þeim dagskrárlið. Sérstakar umræður voru 58 og hafa bara einu sinni áður — á meðan þær hétu umræður utan dagskrár — verið fleiri á sama þingi. Þá hafa l07 lagafrumvörp hlotið samþykki á þessu þingi og síðast en ekki síst hafa aldrei fyrr verið samþykktar fleiri þingsályktanir en nú, alls 72 ályktanir. Það er því ljóst að þetta hefur verið langt, starfsamt og annasamt þing.

Alþingi og starf okkar er oft og tíðum talað niður en hvað svo sem menn segja um gagnrýnina, umræðuhefðina, átökin eða vinnubrögðin hér á Alþingi vil ég leyfa mér að lýsa þeirri skoðun að við sem hlotið höfum kjör til Alþingis séum í rauninni miklir lukkunnar pamfílar.

Við alþingismenn erum í einstakri stöðu. Okkur hefur verið falið vald og mikil ábyrgð af almenningi í þessu landi. Fólkið hefur trúað okkur fyrir því að vinna í sínu umboði að þjóðarhag og afhent okkur völd í því skyni með atkvæði sínu. Og hvað er merkilegra eða göfugra en einmitt það að starfa í umboði fólksins í landinu? Ég vil í þessu sambandi sérstaklega beina orðum mínum til ungs fólks sem vill vinna hugsjónum sínum til gagns og segi: Haslið ykkur völl í stjórnmálum, takið þátt í stjórnmálaumræðunni, sækist eftir umboði kjósenda og freistið þess að ná kjöri. Það er ekkert háleitara en það að njóta trúnaðar fólksins í landinu, kjósendanna, og fá tækifæri til þess að vinna í umboði almennings að framfaramálum á grundvelli þeirra lífsskoðana sem þið hafið.

Við heyrum oft fullyrt að ungt fólk hafi ekki áhuga á stjórnmálum. Þetta held ég að sé mjög orðum aukið. En kannski hafa neikvæð viðhorf til stjórnmála á síðustu árum orðið til þess að beina áhuga margra inn á aðrar brautir en þær sem kunna að liggja inn á vettvang kjörinna fulltrúa. Ég hvet hins vegar ungt fólk til að láta ekki síbyljuna gegn stjórnmálunum, stjórnmálamönnunum og því starfi sem er unnið hér á Alþingi draga úr áhuganum á því að þjóna fólkinu í landinu á þessum vettvangi sem er hornsteinn þess lýðræðisskipulags sem við búum við.

Þrátt fyrir þessa brýningu mína til ungs fólks væri ég síðastur manna til að segja að hér sé allt í lukkunnar velstandi. Það er sannarlega ýmislegt gagnrýnisvert í störfum Alþingis og það lýtur ekki síst að umræðufyrirkomulaginu. Það urðu mér óneitanlega mikil vonbrigði að ekki tókst að ljúka endurskoðun þingskapalaganna á þessu kjörtímabili. Það var vissulega fundað allmikið í þingskapanefndinni og þar voru uppi hugmyndir um veigamiklar breytingar, ekki síst á umræðum og umræðutímanum. Þegar leið á vinnu nefndarinnar varð hins vegar ljóst að það var ekki vilji til að gera markverðar breytingar á fyrirkomulagi umræðna nema samhliða væru gerðar breytingar á stjórnarskránni sem styrktu stöðu minni hluta á Alþingi. Í tillögum sem stjórnarskrárnefnd vann var gert ráð fyrir heimildum til þess að skjóta ákvörðunum Alþingis til þjóðaratkvæðagreiðslu og það hefði tvímælalaust styrkt mjög stöðu minni hlutans á Alþingi hverju sinni. Eins og kunnugt er náðist hins vegar ekki samstaða um að afgreiða tillögur stjórnarskrárnefndar. Þar með voru ekki lengur forsendur fyrir því að samstaða gæti tekist um breytingar á umræðureglum þingskapa. Mín niðurstaða var því sú að leggja ekki fram neinar tillögur um breytingar á þingsköpum á þessu þingi enda taldi ég lítið gagn að því að fara út í breytingar á þingsköpum ef ekki væri tekið á hinum veigameiri málum, ekki síst fyrirkomulagi umræðna og umræðutímanum.

Ég hef áður gert það að umtalsefni að í samanburði við nágrannaþing okkar taka umræður hér í þingsalnum stærri hluta af þingstörfunum en þar tíðkast. Í þeim þingum sem standa okkur nærri er skipulagður rammi um umræður í þingsal og um leið tryggður nægilegur og góður tími fyrir þær umræður. En þar gildir líka það fyrirkomulag að forseta þingsins er ætlað meira vald til að skipuleggja umræðurnar og setja um þær tímaramma. Ég er þeirrar skoðunar að minni háttar breytingar á fyrirkomulagi umræðu muni litlu skipta um ásýnd Alþingis. Eina leiðin er að fara þá leið sem önnur þing hafa farið og koma hér á meira skipulagi. Að mínu mati er slíkt mikilvægur liður í að skapa traust til Alþingis.

Það er mér mikil ánægja að nú loks hillir undir mikilvægar breytingar í húsnæðismálum þingsins. Ég lít svo á að fullt samkomulag sé milli flokka hér á Alþingi um að á Alþingisreitnum rísi hús undir starfsemi þingsins þar sem nefndir fái viðunandi starfsaðstöðu, svo og þingmenn og þingflokkar. Um þetta sameinaðist þingheimur nýlega við atkvæðagreiðslu í þessum sal um afgreiðslu fjármálaáætlunar næstu ára. Ég tel því að þetta samkomulag, eins og það var meitlað í ályktun Alþingis, lifi og standi þótt síðar í haust verði komin ný skipan á þingið og ný ríkisstjórn.

Hönnunarsamkeppni um þessa nýju byggingu á Alþingisreitnum stendur nú yfir og er skilafrestur tillagna 25. október nk. Er þess vænst að útboðsgögn verði tilbúin á vormánuðum 2017 og að vígsla byggingarinnar geti orðið um áramótin 2019/2020.

Þá er ánægjulegt að skýra frá því að lokið er endurbótum á húsinu Skjaldbreið við Kirkjustræti og er verið að taka það í gagnið þessa dagana. Þar með skapa hús Alþingis við götuna heillega mynd og ekki verður annað sagt en að af þeim sé sannkölluð bæjarprýði.

Miklar breytingar hafa orðið á skipan Alþingis á liðnum áratug. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þó að í einstökum kosningum verði verulegar breytingar á þingliðinu. Slíkt hefur gerst áður en jafnan hefur við næstu kosningar á eftir myndast ákveðinn stöðugleiki, ef svo má segja, í skipan þingsins og breytingarnar orðið minni. Eitt stórt stökk varð við alþingiskosningarnar árið 1991 þegar ég tók fyrst fast sæti á Alþingi, en þá voru nýir þingmenn nær 40% þingheims. Samsvarandi breyting hafði þá ekki orðið síðan 1978 þegar nýir þingmenn voru 35% þingmanna. Það sem er hins vegar óvenjulegt núna er að miklar breytingar í skipan þingsins hafa orðið í þrennum kosningum í röð: 2007, en þá voru 38% þingmanna nýir, og 42% í hvorum kosningum fyrir sig, 2009 og 2013. Í þessum þrennum kosningum voru því að meðaltali 41% þeirra þingmanna sem tóku sæti á Alþingi nýir þingmenn. Á ekki lengri tíma en frá 2007 hafa því 126 einstaklingar tekið fast sæti á Alþingi. Margir hafa haft hér stutta viðdvöl. Af þeim 63 þingmönnum sem kjörnir voru til Alþingis 2003, fyrir 13 árum, sitja nú aðeins 11 enn á Alþingi og fjórir þeirra verða ekki í framboði í haust. 50 þeirra þingmanna sem ég vísaði til hurfu af vettvangi í síðustu þrennum kosningum og tveir önduðust.

Flest bendir til þess að þegar nýtt Alþingi kemur saman að loknum alþingiskosningum 29. október nk. haldi þessar miklu breytingar á skipan þingsins áfram. Þær breytingar gætu jafnvel orðið nokkru meiri en urðu í kjölfar síðustu þrennra alþingiskosninga. Hér kemur það vitaskuld aðallega til að stór hópur þingmanna, þriðjungur þingheims, hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram í næstu kosningum eða hefur hafa ekki hlotið framgang í prófkjörum eða flokksvali og enn aðrir munu ekki ná endurkjöri eins og gengur og gerist og við þekkjum.

Í þessu sambandi vil ég líka sérstaklega nefna, sem er í senn mjög umhugsunarvert og einnig áhyggjuefni, að reynslan sýnir að konur sitja almennt skemur á Alþingi en við karlarnir.

Í þeim hópi alþingismanna sem hafa ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri eru tveir varaforsetar Alþingis, hv. 7. þm. Norðaust., Kristján L. Möller, og hv. 10 þm. Suðvest., Þorsteinn Sæmundsson. Kristján L. Möller hefur setið á Alþingi í rúm 17 ár og á þeim tíma sat hann einnig í rúm þrjú ár á ráðherrabekk. Hann hefur á þessu kjörtímabili gegnt embætti 1. varaforseta og eðli málsins samkvæmt hefur því samvinna okkar verið mikil og náin. Þorsteinn Sæmundsson tók sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili og hefur á þeim tíma sinnt forsetaskyldum sínum af mikilli samviskusemi. Vil ég þakka þeim báðum fyrir einstaklega gott samstarf.

Gamall baráttujaxl, hv. 8. þm. Suðvest., Ögmundur Jónasson, lætur nú einnig af þingmennsku. Ögmundur hefur átt sæti á Alþingi í rúm 21 ár og á þeim tíma setið á ráðherrabekk í tæp þrjú ár og gegnt stöðu þingflokksformanns í rúm tíu ár. Ég vil þakka Ögmundi góð kynni um langt árabil.

Nokkrir aðrir þingmenn sem hafa á umliðnum árum verið í forustu á Alþingi og ríkisstjórn hafa einnig tilkynnt að þeir muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Í þeim hópi eru þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Illugi Gunnarsson og Sigrún Magnúsdóttir, en þau þrjú hafa jafnframt um tíma gegnt störfum þingflokksformanns. Tveir fyrrverandi ráðherrar, Katrín Júlíusdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir, verða ekki í framboði við alþingiskosningarnar en þær hafa báðar verið varaformenn flokka sinna. Þá hafa enn fremur þrír þingflokksformenn af sex, þau Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Brynhildur Pétursdóttir, ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri svo og Róbert Marshall sem bæði var þingflokksformaður og varaforseti á þessu kjörtímabili og Helgi Hrafn Gunnarsson sem var þingflokksformaður og áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gegndi auk þingflokksformennsku embætti varaforseta Alþingis í sex ár og þar af í fjögur ár sem 1. varaforseti Alþingis. Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar, lætur nú einnig af þingmennsku. Öllum þessum forustumönnum þakka ég gott samstarf og góð kynni.

Auk þeirra þingmanna sem ég hef nú nefnt hafa sjö aðrir hv. þingmenn ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri. Í þeim hópi eru nefndaformennirnir Frosti Sigurjónsson, Höskuldur Þórhallsson og Vigdís Hauksdóttir. Þá láta jafnframt af þingmennsku Elín Hirst, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Páll Jóhann Pálsson. Ég vil einnig þakka þeim öllum fyrir gott samstarf og góð kynni.

Ég vil þá nefna að á kjörtímabilinu féllu tveir þingmenn frá. Það voru Pétur H. Blöndal og Guðbjartur Hannesson. Mikill missir var af þeim báðum, mannkostamönnum sem lærdómsríkt og gott var að vinna með hér á Alþingi og verðmætt að stofna til góðra persónulegra kynna við þá. Tveir þingmenn afsöluðu sér þingmennsku, þeir Árni Þór Sigurðsson og Jón Þór Ólafsson.

Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem nú hverfa af þingi fyrir störf þeirra á Alþingi og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Þar sem ég er í hópi þeirra þingmanna sem láta nú af þingmennsku vil ég þakka samþingsmönnum mínum öllum fyrir mjög góða viðkynningu og samstarf á umliðnum árum og áratugum, samstarf sem hefur verið ánægjulegt í hvívetna. Hér hefur mér þótt gott að starfa og ég læt því af þingmennsku með góðar minningar um störf mín á Alþingi. Ég hef vissulega notið þeirra ríflegu 25 ára sem ég hef setið á Alþingi, jafnt sem óbreyttur þingmaður í stjórn og stjórnarandstöðu, þingflokksformaður, ráðherra og nú síðast sem forseti Alþingis. Ég hef ekki síst haft mikla ánægju af starfi mínu sem þingforseti og metið það mjög mikils að hafa notið trausts ykkar til að gegna þessu mikla virðingarstarfi. Ég mun sannarlega sakna Alþingis og allra þeirra sem hér starfa.

Á þeim árum sem ég hef verið á þessum vettvangi hefur langflest breyst til batnaðar. Aðstaða þingmanna hefur stórlega batnað, aðgengi okkar að upplýsingum hefur aukist að miklum mun, sérfræðiaðstoð sem stendur okkur til boða er t.d. margfalt meiri en hún var við lok síðustu aldar. Réttur þingmanna er sterkari og á síðustu árum hefur eflst mjög eftirlitshlutverk þingsins, líkt og þróunin hefur verið í þjóðþingunum í kringum okkur. Og eins og ég hef áður bent á hefur Alþingi þá sérstöðu á meðal þjóðþinga að við erum sjálfstæðari í störfum okkar. Alþingi er ekki einhver stimpilpúði framkvæmdarvaldsins eins og stundum er haldið fram. Þvert á móti, hér á Alþingi eru gerðar miklu viðurhlutameiri breytingar á stjórnarfrumvörpum en almennt þekkist annars staðar. Nýleg dæmi frá þessu þingi sem nú er að ljúka eru til marks um þetta. Samt er unnt að gera betur og þannig verður það alltaf, sama hversu vel við reynum að gera á hverjum tíma.

Við lok þinghaldsins þakka ég alþingismönnum samstarfið á þessu þingi. Ég færi varaforsetum þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokka fyrir gott samstarf á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Fréttamönnum þakka ég samstarfið við þá þennan tíma. Það er mikilvægt fyrir Alþingi að almenningur eigi þess kost að fylgjast sem best með því sem hér er að gerast hverju sinni.

Að gömlum og góðum sið vil ég að lokum óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar 

heimkomu og árna ykkur öllum allra heilla.

Ávarp forseta við þingfrestun í október 2016