1.6.2017

Ávarp forseta Alþingis við frestun þingfunda

 

Háttvirtir alþingismenn. Störfum þessa löggjafarþings er nú senn að ljúka. Það kom saman við óvenjulegar aðstæður 6. desember sl., en þá hafði það ekki gerst í hartnær 40 ár að þingsetning að loknum alþingiskosningum færi fram án þess að fyrir lægi meirihlutasamstarf og ný ríkisstjórn. Þingstörfin í jólamánuðinum voru því með nokkuð öðru sniði fyrir okkur sem hér höfðum setið áður. Þá reyndi á getu nýs þings til að takast í sameiningu á við það stóra og flókna verkefni að vinna þverpólitískt að setningu fjárlaga ársins 2017. Þetta var lærdómsríkur tími sem ég held að hafi verið hollur fyrir Alþingi enda getum við öll verið stolt af þeim vinnubrögðum sem þingið sýndi við þessar aðstæður.  

Við upphaf þessa þings hafa aldrei fleiri nýir þingmenn tekið hér sæti og aldrei fyrr höfðu jafn margar konur hlotið kosningu til Alþingis. Þingreynsla manna er sú minnsta frá því að mælingar hófust, um fjögur ár að meðaltali. Mikil endurnýjun alveg frá alþingiskosningum 2007 hefur orðið í þingmannahópnum. Eflaust eru skiptar skoðanir á því hvort slík ör endurnýjun sé góð eða slæm en víst er að í fáum nálægum þjóðþingum hafa breytingar sem þessar orðið á jafn stuttum tíma og hér.

Við stóðum frammi fyrir því að aldrei fyrr höfðu jafn margir þingflokkar verið á Alþingi sem gerði erfiðara en áður að koma öllum fyrir í því takmarkaða húsnæði sem þingið hefur. Það er því verulegt tilhlökkunarefni að á árinu 2020 á að taka nýja byggingu í notkun sem mun bæta aðstöðu alþingismanna og auka sveigjanleika í nýtingu húsnæðis þegar þingflokkar ýmist stækka eða minnka, verða til eða hverfa, og leiða til verulegrar hagkvæmni í rekstri Alþingis.  

Um það verður ekki deilt að veigamesta mál þessa þings hefur verið fjármálaáætlunin fyrir árin 2018–2022. Fjármálaáætlun hefur kallað á breytt verklag við fjárlagagerð, bæði í ráðuneytum og á Alþingi. Ljóst er að allt ferlið á eftir að slípa enn betur, bæði undirbúning við gerð fjármálaáætlunar í Stjórnarráðinu og meðferð málsins í þinginu. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í vikunni um að flýta eigi framlagningu fjármálaáætlunar svo meiri tími gefist til umfjöllunar þingsins.  

Hér á Alþingi þarf forysta þingsins að fara yfir reynsluna af umfjöllun nefnda um fjármálaáætlun. Ég tel jafnframt einsýnt að styrkja þurfi þjónustu við nefndir þingsins og tryggja að þingmenn fái nauðsynlega aðstoð til að geta lagt sjálfstætt mat á ýmsa þætti áætlunarinnar. Til að svo megi verða þarf Alþingi aukið fjármagn. Við þurfum einnig að endurskoða starfsáætlun Alþingis með tilliti til fjármálaáætlunarinnar. Reynslan í ár sýnir að gefa þarf henni meira rými í vinnuskipulagi þingsins. En á móti er líka ljóst að fjárlagameðferðin á haustþingi ætti að geta styst og jafnvel ætti að vera mögulegt að afgreiða fjárlög fyrr en verið hefur. Slíkt væri til mikilla bóta fyrir alla aðila sem þurfa að skipuleggja starfsemi sína á grundvelli fjárlaga hvers árs.  

Ágætu þingmenn. Það hefur ekki leynst nokkrum þingmanni að það hefur verið forseta mikið kappsmál að ljúka þingstörfum í samræmi við starfsáætlun Alþingis. Því miður hefur oftast orðið misbrestur þar á. Starfsáætlun Alþingis á að taka alvarlega. Um það eigum við að sameinast því að það er mikilvægt að alþingismenn geti reitt sig á að hún standist í megindráttum þannig að þingmenn geti skipulagt þátttöku sína í stjórnmálastarfi sem gerð er krafa um utan við þingið. Veigamikill þáttur í því að slíkt takist er að ríkisstjórnin taki af fullri alvöru mið af starfsáætlun þingsins í störfum sínum og tryggi jafnframt að stjórnarmál geti komið hingað nægilega snemma til að gefa þinginu nægan tíma til umfjöllunar um þau. Mikilvægur þáttur í því að svo megi verða er að forseti kynni drög að starfsáætlun með ítarlegum hætti fyrir ríkisstjórn og kalli eftir samvinnu við hana um þennan mikilvæga þátt í skipulagi þingsins.  

Við lok þinghaldsins vil ég þakka öllum alþingismönnum fyrir samstarfið. Eðlilega greinir þingmenn á um ýmis mál en hér á Alþingi hefur ríkt góður andi.

Ég færi varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins svo og formönnum flokkanna og þingflokka fyrir mjög gott samstarf. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég góða aðstoð og mikið og mjög gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á nýju þingi í september.  

 

Upptaka af ræðu forseta Alþingis við frestun þingfunda 1. júní 2017.