21.11.2019

Barnaþing sett í Hörpu


Barnaþing var sett í fyrsta sinn í Hörpu síðdegis í dag.  Meðal viðstaddra voru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, frú Vigdís Finnbogadóttir, sem er verndari barnaþingsins, ráðherrar, forseti Alþingis, skrifstofustjóri Alþingis auk fjölda annarra góðra gesta.

Barnathing-2019-settFrú Vigdís Finnbogadóttir, verndari barnaþings, ásamt ráðherrum, forseta Alþingis og skrifstofustjóra Alþingis.

Barnaþing verður framvegis haldið annað hvert ár. Undirbúningur þingsins var á höndum Salvarar Nordal, umboðsmanns barna, og naut hún og starfsfólk embættisins liðsinnis fjölda barna við það verkefni.

Krakkar-i-HorpuUngir kynnar við setningu barnaþings.

Forseti Íslands ávarpaði þingið og ráðherrar litu um öxl til bernskuára sinna við góðar undirtektir viðstaddra. Hinir fullorðnu verða ekki lengi í fyrrirúmi á þinginu því að það er fyrst og fremst vettvangur barnanna sem sækja það og ræða þar málefni ungu kynslóðarinnar og framtíðarinnar. Um 160 börn taka þátt í þjóðfundi barna 22. nóvember og verða niðurstöður og ályktanir fundarins kynntar ríkisstjórn. Er þeim ætlað að verða hluti af stefnu í málefnum barna.

Barnathing-10Ungmenni víðs vegar að fylltu Norðurljósasal Hörpu við setningu barnaþings síðdegis í dag.