29.1.2021

Breytt skipulag þingvikunnar

Á skrifstofu Alþingis er nú unnið að umbótum á starfsháttum í tengslum við innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og Alþingi er aðili að. Í tengslum við það verkefni hafa forseti og formenn þingflokka orðið sammála um að gera tilraun með breytta skipun þingvikunnar fram að páskum. Kjarni þeirrar breytinga er eftirfarandi:

  1. Þingfundir verða ekki á mánudögum. Þann dag verða nefndafundir (kl. 9–11, 15–17) og þingflokksfundir (kl. 13).
  2. Þingfundir, sem verða á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, hefjast fyrr en áður eða kl. 13 í þeirri von að slíkt stuðli að því að ljúka megi þingfundum fyrr.
  3. Engir fundir verða í fastanefndum á miðvikudögum, en skapað svigrúm um morguninn (kl. 9–10:15) fyrir þinghópa sem hittast af og til, svo sem alþjóðanefndir. Þá verða þingflokksfundir þann dag frá 10:30 til 12.
  4. Þingfundir eða nefndafundir verða ekki á föstudögum á þessu tilraunatímabili nema samkvæmt því sem er að finna í starfsáætlun (þrjú tilvik).

Þessar breytingar munu án efa koma sér vel bæði fyrir störf þingmanna og starfsfólks og verða vonandi festar í sessi þegar fram í sækir.