21.5.2021

Forseti Alþingis svarar erindi frá tyrkneska þinginu

Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, barst sl. þriðjudag bréf frá forseta þjóðþings Tyrklands, hr. Mustafa Şentop, dagsett 14. maí sl. Í bréfinu kom forseti tyrkneska þingsins á framfæri sjónarmiðum Tyrkja varðandi tillögu til þingsályktunar um viðurkenningu á þjóðarmorði á Armenum. Jafnframt lýsti hann áhyggjum af því að málið mundi varpa skugga á samskipti Íslands og Tyrklands.

Í svarbréfi Steingríms J. Sigfússonar vekur hann athygli á að hann, sem forseti Alþingis, leggi ekki mat á efnislegt innihald þingmála heldur sé hans hlutverk fyrst og fremst að meta hvort mál sem lögð eru fyrir Alþingi uppfylli skilyrði þingskapa og brjóti ekki í bága við stjórnarskrá landsins; að málin séu þingtæk, eins og það er kallað. Það sé ekki hlutverk forseta Alþingis að leggja bönd á tjáningarfrelsi þingmanna, heldur þvert á móti að standa vörð um það.

Bréf frá forseta Tyrklandsþings

Bréf frá forseta Alþingis