15.8.2019

Fundur forsætisnefndar á Hólum í Hjaltadal

Fundurinn er meðal annars til undirbúnings framhaldsfundum Alþingis sem verða 28. ágúst til 2. sept. og nýju þingi sem hefst þann 10. september. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins og má þar m.a. nefna starfsáætlun Alþingis 2019–2020, endurskoðun siðareglna þingmanna, endurskoðun þingskapa, fjármál þingsins, stjórnsýslu Alþingis með tilliti til breytts gildissviðs upplýsingalaga og málefni embætta ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis.

Auk forseta Alþingis og varaforseta þingsins sitja fundinn áheyrnarfulltrúar þriggja þingflokka ásamt embættismönnum.