26.9.2024

Kristín Benediktsdóttir kjörin umboðsmaður Alþingis

Kristin-Benediktsdottir_umbodsmadur-AlthingisAlþingi kaus í dag Kristínu Benediktsdóttur prófessor í embætti umboðsmanns Alþingis til næstu fjögurra ára. Hún tekur við embætti 1. október nk.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kýs Alþingi umboðsmann til fjögurra ára í senn. Það er forsætisnefnd Alþingis sem gerir tillögu til þingsins um einstakling til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis. Á fundi forsætisnefndar í morgun var einróma samþykkt að gera tillögu um Kristínu Benediktsdóttur.

Það var þriggja manna undirnefnd forsætisnefndar sem lagði til við forsætisnefnd að gerð yrði tillaga til Alþingis um Kristínu Benediktsdóttur sem umboðsmann Alþingis. Undirnefndina skipuðu Birgir Ármannsson, Oddný G. Harðardóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, en Líneik forfallaðist frá vinnunni á seinni stigum hennar.

Undirnefnd forsætisnefndar naut ráðgjafar nefndar þriggja sérfræðinga, en hana skipuðu Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor og rektor Háskólans í Reykjavík, formaður, Ásmundur Helgason landsréttardómari og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir mannauðsráðgjafi. Báðar nefndirnar starfa samkvæmt reglum forsætisnefndar um gerð tillögu við kosningu ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis.

Fjórir einstaklingar gáfu kost á sér í embætti umboðsmanns. Það voru Anna Tryggvadóttir skrifstofustjóri, Hafsteinn Þór Hauksson dósent, Kristín Benediktsdóttir prófessor og Reimar Pétursson lögmaður.

Að loknu kjöri Kristínar þakkaði forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, Skúla Magnússyni fyrir störf hans sem umboðsmaður Alþingis síðustu þrjú ár, en Skúli hefur gegnt embætti umboðsmanns síðan 1. maí 2021.