29.9.2021

Málsmeðferð Alþingis við athugun kjörbréfa

Samkvæmt 46. gr. stjórnarskrárinnar og lögum um kosningar til Alþingis úrskurðar Alþingi um gildi alþingiskosninga. Kærufrestur er fjórar vikur frá því að landskjörstjórn hefur birt auglýsingu í Stjórnartíðindum um niðurstöður kosninganna og gefið út kjörbréf til þingmanna. Kærufresturinn er styttri hafi þing komið saman fyrir lok kærufrestsins. Kærum skal beint til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 118. gr. laga um kosningar til Alþingis. Ráðuneytið sendir þinginu svo framkomnar kærur og gögn (gerðarbækur og skýrslur yfirkjörstjórna) sem borist hafa frá landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum í þingbyrjun.

Þegar landskjörstjórn hefur gefið út kjörbréf að loknum alþingiskosningum og áður en Alþingi kemur saman er starfandi forseta Alþingis heimilt að kveðja saman nefnd níu kjörinna alþingismanna (undirbúningskjörbréfanefnd) til að undirbúa þá rannsókn kjörbréfa og annarra mála sem fer fram á þingsetningarfundi, sbr. 1. gr. laga nr. 80/2021.

Við val í undirbúningskjörbréfanefndina er fylgt hlutfallsreglu 82. gr. þingskapa Alþingis. Þingflokkar sem ekki eiga fulltrúa í nefndinni mega tilnefna áheyrnarfulltrúa. Í áliti kjörbréfanefndar, sem kjörin er á þingsetningarfundi, er fjallað um framkomnar kosningakærur og kjörseðla sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórna (ágreiningsseðla) ef einhverjir eru og gerð tillaga um afgreiðslu þeirra og um samþykkt kjörbréfa þingmanna sem landskjörstjórn hefur gefið út. Álit kjörbréfanefndar er svo lagt fram á þingfundi og greiða þingmenn atkvæði um tillögur kjörbréfanefndar. Sjá til upplýsingar álit og tillögur kjörbréfanefndar vegna alþingiskosninga.