9.7.2012

Hátíðarsamkoma í Alþingishúsinu 8. júlí 2012

Þess var minnst með hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu þann 8. júlí 2012 að þá voru 90 ár liðin frá því að Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi, en hún var landskjörin alþingismaður 1922-1930. Af því tilefni bauð forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, öllum þeim konum sem tekið hafa sæti á Alþingi, bæði sem þingmenn og varaþingmenn, til hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu.

Rúmlega 120 konur tóku þátt í athöfninn en auk þingmanna voru viðstaddar frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Þær konur sem gegnt hafa embætti þingforseta sóttu athöfnina, þær er Guðrún Helgadóttir, Salome Þorkelsdóttir, Sólveig Pétursdóttir ásamt núverandi forseta Alþingis auk Ragnhildar Helgadóttur, sem fyrst kvenna gegndi embætti forseta þingdeildar.

Á hátíðarsamkomunni flutti forseti Alþingis ávarp og tvö erindi voru flutt af fyrrverandi þingmönnum, Kristín Ástgeirsdóttir fjallaði um Ingibjörgu H. Bjarnason og Helga Guðrún Jónasdóttir ræddi um stjórnmálaþátttöku kvenna. Kvennakórinn Vox feminae söng við athöfnina.

Erindin sem flutt voru:

Ávarp forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur (pdf).

Ingibjörg H. Bjarnason, Kristín Ástgeirsdóttir (pdf).

Stjórnmálaþátttaka kvenna, Helga Guðrún Jónasdóttir (pdf).