8.7.2012

Ávarp forseta Alþingis á hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu 8. júlí

Ávarp forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, á hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu 8. júlí 2012 í tilefni þess að þann dag voru liðin 90 ár frá því að fyrsta konan var kjörin til setu á Alþingi.

Ágætu hátíðargestir.

Ég býð ykkur allar hjartanlega velkomnar til þessarar hátíðarsamkomu sem haldin er í tilefni þess að þennan dag fyrir 90 árum, laugardaginn 8. júlí 1922, var Ingibjörg H. Bjarnason fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi - en hún var þá forstöðukona Kvennaskólans í Reykjavík.

Við getum örugglega allar verið sammála um að það er ákaflega mikilvægt að halda í heiðri minningu þeirra kvenna sem ruddu brautina í jafnréttisbaráttunni. Án þeirra forustu og þrautseigju værum við sannarlega ekki í þeirri stöðu sem við höfum þó náð. Það ber okkur að þakka um leið og við höfum í huga að við megum aldrei slaka á í baráttunni fyrir jafnri stöðu kvenna og karla.

Hingað er boðið í dag öllum þeim konum sem tekið hafa sæti á Alþingi, bæði sem aðal- og varamenn, og konum sem komið hafa með beinum hætti að lagasetningu. Þetta er dágóður hópur því að mér telst svo til að 213 konum hafi verið boðið hingað í dag. Af þeim hafa 123 haft tök á að þekkjast boðið og vil ég láta í ljós ánægju mína með þessa góðu þátttöku.

Ég vil einnig geta þess að síðan 1922 hafa 230 konur tekið sæti á Alþingi sem kjörnir fulltrúar, ýmist sem aðal- eða varamenn. Í dag er staddur í þessum sal rúmlega helmingur þessara kvenna. Þá vil ég nefna að ein kona hefur setið á Alþingi í krafti embættisstöðu sinnar, en það er Ragna Árnadóttir sem fyrst kvenna gegndi embætti utanþingsráðherra.

Fjórar konur hafa skipað æðstu stöðu löggjafans. Það er mér sérstök ánægja að forverar mínar úr þeim hópi eru hér með okkur í dag, þær Guðrún Helgadóttir, Salome Þorkelsdóttir og Sólveig Pétursdóttir. Einnig er hér í dag Ragnhildur Helgadóttir sem fyrst kvenna gegndi embætti forseta þingdeildar.

Þá vil ég nefna Jóhönnu Sigurðardóttur sem ekki hafði tök á að koma en er forsætisráðherra fyrst íslenskra kvenna. Með þeim áfanga hafa konur náð að skipa allar fjórar æðstu stöður íslenska ríkisins.

En með okkur eru ekki eingöngu konur sem setið hafa á Alþingi. Sérstakir heiðursgestir eru þrír brautryðjendur, konur sem allar hafa komið að lagasetningu í starfi sínu. Þær eru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir, en þær hafa báðar gegnt embætti forseta Hæstaréttar og sem slíkar verið handhafar forsetavalds. Ég býð þær allar þrjár innilega velkomnar hér með okkur í dag.

Það er til merkis um þann mikla mannauð sem hér er samankominn að þau tvö hátíðarerindi sem hér verða flutt flytja konur sem báðar hafa setið á Alþingi. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisráðs, sat tvö full kjörtímabil sem aðalmaður á Alþingi, lengst af fyrir Kvennalista auk þess sem hún hafði einnig setið áður á þingi sem varamaður. Helga Guðrún Jónasdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, tók fjórum sinnum sæti á Alþingi sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst vel við hæfi að fulltrúar þessara meginhópa, þingmanna og varaþingmanna, tali hér í dag.

Þegar við hugsum til Ingibjargar og þeirra kvenna sem hér sátu einar meðal karla á Alþingi fyrstu áratugina hlýtur hugurinn að reika til þess karllæga umhverfis sem þær þurftu að starfa í. Það hefur örugglega verið erfitt að vera ein við slíkar aðstæður - þótt ekki hafi þær kvartað svo ég viti.

Ég minnist þess sjálf að mér þótti þingið ekki auðveldur heimur þegar ég kom hingað fyrst sem varamaður fyrir Framsóknarflokkinn 17. febrúar 1987, fyrir rúmum 25 árum. Þá átti engin kona sæti í þingflokki framsóknarmanna. Ég man að ég nefndi það á mínum fyrsta þingflokksfundi að það væri ekki boðlegt að engin kona sæti á þingi fyrir flokkinn. Viðbrögð voru lítil. Nokkrum dögum síðar tók önnur kona sæti sem varamaður í þingflokknum, Magdalena M. Sigurðardóttir, og var strax mikill styrkur af því að vera þar tvær.

Frá þessum fyrstu þingsetudögum mínum er þó sterkust í minningunni sú mikla samkennd sem ég varð vör við meðal þeirra níu kvenna sem áttu fast sæti á Alþingi. Að öllum ólöstuðum vil ég þó sérstaklega nefna þær hlýju móttökur sem ég fékk frá Kvennalistakonunum sem ég verð þeim ævarandi þakklát fyrir. Ég minnist þess að þegar ég flutti jómfrúrræðu mína, viku eftir að ég tók sæti, og mælti fyrir þingályktunartillögu um neyslu- og manneldisstefnu, þá tók enginn karlmaður til máls en tvær konur tjáðu sig um málið, þær Guðrún Agnarsdóttir Kvennalista og Kolbrún Jónsdóttir Alþýðuflokki.

Í ljósi minnar fyrstu reynslu af þingsetu finnst mér ég að svolitlu leyti geta sett mig í spor þeirra kvenna sem fyrstar tóku sæti á Alþingi og þurftu að starfa í því karlaveldi sem þessi vinnustaður hefur lengst af verið.

Í dag höfum við þó náð þeim árangri að af 63 þingmönnum eru konur 25, þ.e. tæp 40% þingheims. Erum við í hópi þeirra þjóða sem bestum árangri hafa náð í þeim efnum en við vorum reyndar 43% eftir síðustu alþingiskosningar.

Það styttist í að minnst verði annars stórviðburðar í réttindabaráttu kvenna. Eftir tæp þrjú ár, þann 19. júní 2015, verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis.

Margar ykkar sem hér eruð voruð á fundi sem ég kallaði til 31. mars sl. til að ræða undirbúning að því að minnast þessara tímamóta. Sá fundur tókst einstaklega vel og sýndi að stór og breiður hópur kvenna og karla er reiðubúinn að leggja þessu verkefni lið. Margar góðar hugmyndir komu fram um hvernig við ættum að standa að málum á hátíðarárinu.

Úr þeim hugmyndum á eftir að vinna frekar auk þess sem ljóst er að við verðum að tryggja fjárhagslegan grundvöll verkefnisins. Þá þarf að huga að ýmsum praktískum atriðum eins og því að koma á fót nefnd til að hafa á hendi undirbúning og skipulagningu viðburða á hátíðarárinu. Ég mun því beita mér fyrir því að í haust leggi þær konur sem sitja á Alþingi fram þingsályktunartillögu sem ýti þessu verkefni úr vör.

Það hefur ekki farið fram hjá neinni ykkar að við höfum í tilefni þessarar hátíðarsamkomu sett hér á vegg í þingsalnum málverk af fyrstu konunni á þingi. Þetta málverk er eftir Gunnlaug Blöndal listmálara. Verður ekki annað sagt en að honum hafi tekist einstaklega vel upp. Portrettið hafði verið í eigu Ingibjargar og gáfu ættingjar hennar Alþingi það árið 2005. Það liggja hins vegar hvorki fyrir upplýsingar um hvenær það var málað né af hvaða tilefni. Ef einhver þekkir sögu þessa verks væri vel þegið að fá að heyra hana síðar.

Ég býð ykkur aftur innilega velkomnar til Alþingis af þessu merka tilefni.