20.6.2012

Alþingi (140. löggjafarþingi 2011-2012) hefur verið frestað

Þingfundir 140. þings voru 129 og stóðu alls í rúmar 846 klst. Af þeim voru umræður um frumvörp í tæpar 320 klst. og umræður um þingsályktanir í 218 klst. Lengsta umræðan var um breytingar á veiðigjaldi, stóð hún í tæplega 70 klst.

Þingfundir voru haldnir á 109 dögum, þing stóð frá 1. október 2011 til 17. desember 2011 og frá 16. janúar til 19. júní 2012.

Af 240 frumvörpum urðu 95 að lögum.
Af 174 þingsályktunartillögum voru 50 samþykktar, einni var vísað frá með rökstuddri dagskrá.
30 skýrslur voru lagðar fram, þar af sex samkvæmt beiðni og ráðherrar fluttu einnig sjö munnlegar skýrslur.
Álit fastanefnda voru níu.
Fyrirspurnir á þingskjölum voru 410, munnlegar fyrirspurnir 120 og fyrirspurnir lagðar fram til skriflegrar afgreiðslu 290, af þessum 410 fyrirspurnum var 384 svarað. Í óundirbúnum fyrirspurnatímum voru bornar upp 250 fyrirspurnir til ráðherra.
Sérstakar umræður voru alls 51 og atkvæðagreiðslur voru 1764, þar af voru þrjú nafnaköll.

Þingmál sem lögð voru fram á 140. þingi voru 865 og tala prentaðra þingskjala var 1714.

Af þeim 296 þingmálum sem vísað var til nefnda voru 173 lagafrumvörp, þar af 104 frá ríkisstjórn en 69 flutt af þingmönnum eða nefnd (7).

Nefndirnar afgreiddu með nefndaráliti 100 lagafrumvörp; 84 stjórnarfrumvörp og 16 þingmanna- og nefndafrumvörp (7).

Af þingsályktunartillögum sem vísað var til nefnda voru 35 frá ríkisstjórn og 86 frá þingmönnum. Alls voru 34 stjórnartillögur afgreiddar með nefndaráliti og 23 þingmannatillögur.

Nefndirnar luku ekki afgreiðslu á 135 þingmálum.

Fastanefndir (eða meiri hlutar þeirra) fluttu 16 frumvörp og 6 tillögur til þingsályktunar í eigin nafni og voru þau öll afgreidd nema 6. Fastanefndir skiluðu 9 álitum um skýrslu og 2 skýrslum. Alls héldu fastanefndirnar 584 nefndafundi sem stóðu í 1037 klst. 7927 umsagnarbeiðnir voru sendar út og 2664 erindi bárust nefndunum. 3074 gestir mættu á nefndafundi.