1.12.2011

Endurskoðun laga um Ríkisendurskoðun og laga um umboðsmann Alþingis

Vinnuhópur, sem forsætisnefnd Alþingis skipaði á árinu 2007, til þess að fjalla um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, lagði m.a. til í skýrslu sinni 2009 að lögum um Ríkisendurskoðun og lögum um umboðsmann Alþingis yrði breytt í þeim tilgangi að styrkja frekar eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu. Af þessu tilefni og í ljósi umfjöllunar þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis haustið 2010, ákvað forsætisnefnd á fundi sínum 8. nóvember sl. að skipa tvær þriggja manna nefndir til þess að fara yfir og endurskoða lög um nefndar stofnanir þingsins.

Nefnd um endurskoðun laga um Ríkisendurskoðun skipa Þuríður Backman, alþingismaður og 2. varaforseti Alþingis, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Stefán Svavarsson, lektor og löggiltur endurskoðandi.

Nefnd um endurskoðun laga um umboðsmann Alþingis skipa Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður og 1. varaforseti Alþingis, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Ragna Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra og formaður Almannaheilla, samtaka sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum frjálsra félagasamtaka sem starfa í almannaþágu.

Nefndirnar hafa hafið störf og er ritari þeirra Þórhallur Vilhjálmsson, aðallögfræðingur Alþingis.

Þeir sem óska eftir því að koma á framfæri athugasemdum eða ábendingum til nefndanna geta komið þeim til ritara þeirra á tölvupóstfangið: thorhallurv@althingi.is eða á póstfangið:
Alþingi,
b.t. Þórhalls Vilhjálmssonar, aðallögfræðings Alþingis,
Alþingishúsinu við Austurvöll (Skála),
150 Reykjavík.

Óskað er eftir að athugasemdir eða ábendingar berist fyrir lok febrúar 2012.