3.10.2011

Ný lög um þingsköp Alþingis

Helstu breytingar á lögum um þingsköp Alþingis

Þann 11. júní voru samþykkt ný lög um þingsköp Alþingis. Hér má lesa samantekt um efni laganna

Breytingar á nefndaskipan Alþingis

Meginbreytingarnar á skipulagi fastanefnda Alþingis eru þær að fastanefndum fækkar úr tólf í átta. Á Alþingi munu þá starfa eftirfarandi fastanefndir: allsherjar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, atvinnuveganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, fjárlaganefnd, utanríkismálanefnd, velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin skal í senn fjalla um þingmál sem falla undir málefnasvið hennar og einnig hafa ríka frumkvæðisskyldu um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Fækkun fastanefnda Alþingis á að bæta löggjafarstarfið því betra skipulag verður á störfum nefndanna. Þá er lagt til að verkaskipting nefnda taki ekki að öllu leyti mið af skiptingu málefna í stjórnarráðinu eins og verið hefur heldur sé höfð hliðsjón af störfum Alþingis og verkaskiptingin ræðst af því hvað heppilegast er talið fyrir starfsemi þingsins og að vinnuálag verði sem jafnast. Samkvæmt breytingunum fækkar nefndasætum úr 110 í 72. Flestir þingmenn munu sitja í einni nefnd, en nú sitja margir þingmenn í tveimur til fjórum nefndum. Hver nefndarmaður getur því sinnt betur en áður starfsskyldum sínum í nefndum og fengið betri heildarsýn yfir tengda málaflokka. Öllum þessum atriðum er ætlað að skila markvissara starfi sem muni koma fram í betri undirbúningi lagasetningar. Með breytingum á fyrirkomulagi nefndafunda er aðgengi almennings og fjölmiðla að starfi fastanefnda Alþingis og nefndafundum aukið. Þá er gert ráð fyrir því að fundargerðir nefnda verði gerðar opinberar sem fyrst að afloknum fundum nefnda.

Eftirlitshlutverk Alþingis

Með lögunum er Alþingi gert betur kleift að annast þau verkefni sem því eru falin samkvæmt stjórnarskrá við að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdarvaldsins. Settar eru skýrari reglur um rétt Alþingis, einkum þingnefnda, til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni. Lögð er skylda á ráðherra að tryggja að Alþingi hafi þær upplýsingar sem hafa verulega þýðingu fyrir þau mál sem til meðferðar eru á Alþingi. Þá getur Alþingi nú tekið við trúnaðarupplýsingum sem hafa þýðingu fyrir störf þingsins. Í tengslum við þetta er lögfest almenn þagnarskylduregla sem tekur til allra alþingismanna.


Samkomudagur Alþingis - fjárlög

Samkvæmt lögunum verður samkomudagur Alþingis, frá og með haustinu 2012, annar þriðjudagur í september. Eftir þessar breytingar mun fjárlagafrumvarpið koma fyrr fram en nú er og þinginu gefast betri tími til að fjalla um frumvarpið. Þá er í lögunum lagt til að fjármálaráðherra skuli leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl ár hvert tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs (ramma) svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir. Þingsályktunartillaga af þessum toga mun fyrst verða lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl 2013.

Nokkur önnur atriði

Staða minni hluta er styrkt á ýmsan hátt í lögunum. Ákvæði um upplýsingarétt þingmanna og upplýsingaskyldu ráðherra á að tryggja jafnræði þingmanna í aðgangi að upplýsingum. Líklega birtist þetta þó skýrast í breytingum á reglum um störf þingnefnda. Minni hluti nefndarmanna, fjórðungur, getur krafist þess að fundur með gestum verði opinn og sami minni hluti getur krafist aðgangs að gögnum stjórnvalda.

Reglur um framlagningarfrest fyrir lagafrumvörp og þingsályktunartillögur á síðari hluta þings eru hertar. Þegar mál koma inn í þingið eftir að framlagningarfresturinn er liðinn komast þau ekki á dagskrá fyrr en a.m.k. fimm dögum eftir að búið er að útbýta þeim. Frá því má þó víkja ef þrír fimmtu hlutar þeirra þingmanna er um það greiða atkvæði samþykkja.

Sérstök ákvæði eru um að kostnaðamat skuli fylgja stjórnarfrumvörpum við framlagningu þeirra og eins um að það skuli yfirfarið ef nefnd leggur til verulegar breytingar á málinu.

Forsætisráðherra skal í upphafi hvers þings á hverju ári leggja fram skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem Alþingi hefur samþykkt. Skýrslan fer til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir að forsætisráðherra hefur lagt hana fram. Nefndin getur síðan lagt fyrir þingið álit sitt á skýrslu ráðherra og ef hún telur ástæðu til gert tillögur til þingsins um einstök atriði í skýrslunni. Ákvæðið miðar að því að vilji þingsins um einstök mál nái fram að ganga.

Frestur til að svara fyrirspurnum skriflega er lengdur úr 10 virkum dögum í 15 virka daga. Það þykir raunhæfari tími fyrir ráðherra til að svara. Þegar það dregst að svara fyrirspurn skriflega þarf ráðherra að gera þinginu grein fyrir því, af hvaða ástæðum það er og hvenær vænta megi svars.

Umræður utan dagskrár munu framvegis fá heitið „sérstakar umræður“ og verða settar á dagskrá þingfunda.

Opnað er fyrir útbýtingu þingskjala á vef þingsins á milli þingfunda.

Forsætisnefnd skal undirbúa og leggja fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu siðareglur fyrir alþingismenn. Forsætisnefnd skal einnig fjalla um mál er varða siðareglur alþingismanna, framkvæmd þeirra og brot á þeim.

Lögfest er sú venjuhelgaða regla að þingmálið sé íslenska.

Í lögunum er síðan sérstakt ákvæði um starfsemi upplýsinga- og rannsóknarþjónustu sem starfar á vegum skrifstofu Alþingis bæði fyrir þingmenn og nefndir þingsins.