1.10.2011

Ávarp forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, við setningu Alþingis 1. október 2011

Ég býð háttvirta alþingismenn og gesti Alþingis velkomna til þingsetningar.

Mörg brýn verkefni bíða úrlausnar á nýju löggjafarþingi og ég vænti þess að mega eiga gott samstarf við alla háttvirta alþingismenn við lausn þeirra mála og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til gæfu.

Þessi dagur er merkur áfangi í sögu Alþingis. Í dag taka gildi ný þingsköp sem marka í ýmsum efnum skil í skipulagi og starfsháttum Alþingis. Líta má á þessi nýju þingsköp sem svar Alþingis við þeim kröfum að þingið, líkt og aðrar stofnanir samfélagsins, dragi sinn lærdóm af þeim áföllum sem þjóðfélag okkar varð fyrir með bankahruninu árið 2008. Með nýjum þingsköpum, sem voru samþykkt samhljóða, er Alþingi ætlað að vera betur búið en áður til að sinna skyldum sínum og verkefnum. Þingskapabreytingarnar eru í meginatriðum tvíþættar.

Hið fyrra er að Alþingi og alþingismönnum eru tryggðir betri möguleikar en áður til að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum stjórnsýslunnar. Vísa ég þar m.a. til stofnunar nýrrar eftirlitsnefndar þingsins og lagaákvæða er tryggja ríkari upplýsingarétt þingmanna og upplýsingaskyldu ráðherra. Ég minni jafnframt á að til hliðar við það pólitíska þingeftirlit sem er á hendi okkar alþingismanna er það eftirlit sem sinnt er af stofnunum Alþingis, Ríkisendurskoðun og embætti umboðsmanns Alþingis. Þessar sjálfstæðu stofnanir starfa undir verndarvæng Alþingis og Alþingi ber skylda til að tryggja að stjórnvöld sýni þeim þá virðingu sem þeim ber. Þær eru lykilstofnanir í lýðræðisskipan okkar.

Önnur meginbreytingin felur í sér breytta nefndaskipan og þar með traustari innviði þingsins, breytt verklag og aðild stjórnarandstöðu að forustu nefndanna. Hlutverk formanns breytist og verkefni hans verður einkum að hafa yfirumsjón með störfum nefndarinnar og samhæfa vinnu annarra nefndarmanna. Hið pólitíska hlutverk formanns nefndar verður annað en verið hefur og þannig skiptir minna máli hvort formaður kemur úr hópi stjórnliða eða stjórnarandsstæðinga. Það urðu mér því afarmikil vonbrigði að ekki skyldi takast samkomulag um að þingflokkarnir skipti með sér formennsku í nefndunum nú þegar við gildistöku laganna, en þingskapalögin kveða ótvírætt á um slíkt sem meginreglu. Það fyrirkomulag reyndist vel á síðasta áratug síðustu aldar en var því miður afnumið í upphafi hrundansins fyrir rúmum 10 árum. Ég treysti því hins vegar að þingflokkunum takist sem fyrst að skipta með sér formennsku í nefndunum líkt og formenn þingflokkanna hafa sammælst um að vinna að.

Varðandi breytt verklag í nefndastörfunum vil ég sérstaklega vekja athygli alþingismanna á því að með svokölluðu „framsögumanna-kerfi“ er ætlunin að dreifa verkum í nefndum á fleiri en verið hefur. Með breytingunni eiga allir nefndarmenn kost á að taka virkan þátt í nefndarstarfinu og hver og einn getur tekið meginábyrgð á og haft á hendi verkstjórn á einu eða fleiri málum sem fyrir nefndinni liggja.

Fjölmargar aðrar breytingar verða í starfsháttum Alþingis með nýjum þingsköpum og er mikilvægt að við sameinumst um að tryggja árangursríka framkvæmd hinna nýju þingskapa. Ég beini því þeim tilmælum til þeirra sem munu gegna formennsku í nefndum að þeir á fyrsta fundi nefndar fari með nefndarmönnum vandlega yfir þær breytingar sem verða í starfi nefndanna.

Þegar Alþingi skipaði í árslok 2008 nefnd til að rannsaka fall bankanna varð að setja sérstök lög um störf þeirrar nefndar þar sem ekki var til neinn lagarammi fyrir rannsóknarnefndir á vegum Alþingis. Lögin sem Alþingi setti við lok vorþings nú í júní um rannsóknarnefndir voru því mjög mikilvægur þáttur í því að efla enn frekar eftirlitsvald Alþingis. Á grundvelli laganna um rannsóknarnefndir hefur forseti, að undangengnu samráði innan Alþingis, skipað tvær rannsóknarnefndir til þess að sinna þeim rannsóknum sem þingið hefur samþykkt að hefja, þ.e. um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Þær hafa nú þegar tekið til stafa og hefur þeim jafnframt verið tryggð nauðsynleg starfsaðstaða.

Með breyttum þingskapalögum og lögum um rannsóknarnefndir hefur Alþingi sýnt að það ætlar ekki að skorast undan því að gera í sínum ranni nauðsynlegar breytingar. Það er hins vegar ljóst að Alþingi þarf að gera enn frekari breytingar til að svara kalli tímans um ný og bætt vinnubrögð. Að því verður unnið á þessu löggjafarþingi og mun sú nefnd sem vann að endurskoðun þingskapa halda áfram störfum. Reglur um ræðutíma er eitt þeirra atriða sem við þurfum að líta til. Að mínu mati er knýjandi að fá niðurstöðu í þessu máli enda Alþingi ekki til sóma hvernig umræður hér hafa þróast. Þar hvílir ábyrgðin jafnt á stjórnarliðum sem stjórnarandstæðingum. Um þetta efni þurfum við að ná sem víðtækastri sátt; sátt sem tryggir að minni hlutinn á þingi geti veitt stjórnvöldum eðlilegt aðhald samhliða því að ekki sé gengið á rétt meiri hlutans til að fá mál afgreidd samkvæmt því lýðræðislega umboði sem hann hefur.

En lagasetning er enginn töfrasproti. Vinnubrögðum hér á Alþingi verður ekki bara breytt með nýjum lögum og reglum. Við verðum líka að horfa í eigin barm og finna til ábyrgðar sem einstaklingar og kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Þjóðin gerir kröfu til slíks. Það verður aldrei of oft sagt að ímynd Alþingis í hugum landsmanna er á ábyrgð okkar sem sitjum hér í þessum þingsal. Höfum ætíð hugfast að forsenda þess að fólk beri virðingu fyrir Alþingi er að við berum virðingu hver fyrir öðrum og virðum skoðanir hver annars. Okkur hefur verið trúað fyrir fjöreggi lýðræðisins, sem Alþingi er, og undir þeirri ábyrgð verðum við að standa ef við viljum tryggja heilbrigt stjórnmálalíf í landi okkar.

Ég vil að lokum skýra frá því að í gær komu út tvö rit sem unnin hafa verið á vegum Alþingis. Þetta eru bækurnar Þingræði á Íslandi: Samtíð og saga og 1. bindi af skjölum yfirréttarins sem starfaði á Alþingi og er sú útgáfa framhald Alþingisbókanna. Bæði eru þessi rit afar fróðleg aflestrar. Annað þeirra fjallar um grunnreglur þingræðisins, framkvæmd þess og stöðu Alþingis en hitt ritið minnir okkur á hversu djúpum rótum Alþingi stendur í sögu okkar.

Þessum þingfundi verður nú brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis. Ég bið hæstvirtan forsætisráðherra að ganga með mér til Skála.

Þessum fundi er nú frestað til kl. 12.30.