29.9.2011

Setning Alþingis laugardaginn 1. október 2011

Þingsetningarathöfnin hefst kl. 10.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, vígslubiskup, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu kl. 10.25. Séra Agnes M. Sigurðardóttir prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis, predikar og séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt Jóni Aðalsteini Baldvinssyni, vígslubiskupi á Hólum. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, vígslubiskup, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 140. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, ávarp. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 12.30.

Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið kl. 12.30 verður kosið í nefndir þingsins og jafnframt hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 verður þá útbýtt.

Yfirlit helstu atriða þingsetningar:

Laugardagur 1. október:
Kl. 10.25 Þingmenn ganga til kirkju.
Kl. 10.30 Guðsþjónusta.
Kl. 11.05 Þingmenn ganga úr kirkju í Alþingishúsið.
Kl. 11.10 Forseti Íslands setur þingið og flytur ávarp.
Strengjakvartett flytur Hver á sér fegra föðurland.
Strengjakvartettinn skipa Una Sveinbjarnardóttir og Pálína Árnadóttir fiðlur, Þórunn Ósk Marinósdóttir lágfiðla og Bryndís Halla Gylfadóttir selló.
Kl. 11.25 Forseti Alþingis flytur ávarp.
Kl. 11.35 Hlé á þingsetningarfundi fram til kl. 12.30.

Framhald þingsetningarfundar kl. 12.30:
Kl. 12.30 Tilkynningar, útbýting fjárlagafrumvarps 2012, kosið í nefndir þingsins og hlutað um sæti þingmanna.
Kl. 12.50 Fundi slitið.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða á mánudagskvöld 3. október, kl. 19.50.

Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 þriðjudaginn 4. október og hefst umræðan kl. 10.30.