29.9.2011

Tvö ný rit afhent forseta Alþingis: Þingræði á Íslandi: Samtíð og saga og Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl

Föstudaginn 30. september kl. 11 verða forseta Alþingis afhent tvö ný rit sem unnin hafa verið á vegum Alþingis: Þingræði á Íslandi: Samtíð og saga og Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl (1. bindi, 1690–1710).

Fulltrúum fjölmiðla er boðið að vera við athöfnina.

Forsætisnefnd Alþingis ákvað árið 2005 að láta rita bók um þingræði á Íslandi í tilefni þess að árið 2004 voru liðin 100 ár frá upphafi þingræðis hér á landi.
Ritstjórn skipuðu Helgi Skúli Kjartansson, Ragnhildur Helgadóttir og Þorsteinn Magnússon en höfundar bókarinnar eru þau Ragnhildur og Þorsteinn ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur og Stefaníu Óskarsdóttur.
Í bókinni eru ýmsir þættir þingræðis rannsakaðir út frá ólíkum sjónarhornum og fræðigreinum; lögfræði, stjórnmálafræði og sagnfræði. Fjallað er um þingræðishugtakið í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, þingræðisregluna í íslenskri stjórnskipun, þingræði í framkvæmd hér á landi fyrr og síðar og stöðu Alþingis í því meirihlutaþingræði sem hér hefur lengst af ríkt.

Árið 2001 var undirritaður samningur milli Sögufélags og forsætisnefndar Alþingis um að ráðist yrði í útgáfu skjala yfirréttarins en hann var starfandi á árunum 1563–1800 og var æðsta dómstig innanlands á Íslandi. Stefnt er að því að gefa út heildarsafn varðveittra gagna frá yfirréttinum en þau skjöl eru hluti af sögu Alþingis hins forna.

Fræðileg vinna við uppskrift og frágang alls texta, auk annarrar vinnu sem tengist undirbúningi útgáfunnar, er í höndum starfsmanna Þjóðskjalasafnsins. Áætlað er að gerðir yfirréttar Alþingis komi út í átta bindum og verður hvert þeirra 600–700 bls. Fyrsta bindi lítur nú dagsins ljós en áætlað er að gefa út eitt bindi á ári.

Í ritstjórn, sem skipuð var 2008, sitja Eiríkur G. Guðmundsson og Hrefna Róbertsdóttir, fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands, og Anna Agnarsdóttir og Már Jónsson, fyrir hönd Sögufélags. Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur er aðalumsjónarmaður með útgáfunni, ásamt Gísla Baldri Róbertssyni, en þau tóku við af Gunnari Sveinssyni skjalaverði sem nú er látinn.

Bækurnar verða afhentar forseta Alþingis við athöfn í efrideildarsal Alþingishússins kl. 11 föstudaginn 30. september og er fulltrúum fjölmiðla boðið að vera við athöfnina.