29.8.2011

Þingleg meðferð tillagna stjórnlagaráðs

Forseti Alþingis hefur sent fjölmiðlum og alþingismönnum eftirfarandi upplýsingar um þinglega meðferð tillagna stjórnlagaráðs.

Á árlegum fundi forsætisnefndar Alþingis til undirbúnings fyrir þinghaldið í vetur var m.a. rætt um niðurstöður stjórnlagaráðs og þinglega meðferð á tillögum þess að nýrri stjórnarskrá. Forseti lagði fram minnisblað um meðferð tillagna ráðsins og voru engar athugasemdir gerðar um hina þinglegu meðferð málsins á fundinum.

Til þess að hægt sé að leggja tillögur stjórnlagaráðs fyrir Alþingi þurfa þær að koma fram í formi þingmáls á þingskjali og þingmenn geta einir flutt slíkt þingmál. Forseti lagði til að tillögur stjórnlagráðs væru lagðar fram sem skýrsla frá forsætisnefnd til Alþingis. Ástæðan fyrir þeirri tilhögun er sú að með því felst ekki efnisleg afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta þeirra af hálfu þeirra sem flytja málið (skýrsluna). Í skýrslunni verður saga málsins reifuð og fjallað um störf ráðsins, frumvarpstextinn birtur ásamt greinargerð frumvarpsins og jafnframt birt nauðsynleg fylgiskjöl.

Samkvæmt tillögu forseta er gert ráð fyrir að frumvarpstillögur stjórnlagaráðs verði ræddar þegar nýtt Alþingi kemur saman í október. Forseti telur ekki heppilegt að leggja tillögur ráðsins fram á fundadögum þingsins í september, sem eru níu talsins, því að þá yrði mjög knappur tími til umræðna, auk þess sem málið félli niður eins og önnur þingmál er nýtt löggjafarþing hefst 1. október.

Forseti stefnir að því að taka tillögur stjórnlagaráðs til umræðu eins fljótt og kostur er á í október og engar hömlur verða af hálfu forseta á þeirri umræðu sem fram mun fara um málið. Allir alþingismenn sem vilja geta þá tjáð sig um það. Að því loknu gengur málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, sem fjallar um stjórnarskrármál. Í áðurgreindu minnisblaði forseta er hvatt til þess að umfjöllun nefndarinnar verði eins ítarleg og opin og framast er kostur. Í því sambandi er m.a. nefnt að æskilegt sé að nefndin kalli til fundar við sig ýmsa þá sem unnið hafa að málinu á fyrri stigum þess, t.d. fulltrúa í fyrrum stjórnlaganefnd og stjórnlagaráði, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og aðra þá er nefndin kann að telja gagnlegt að hafa samráð við um meðferð málsins. Þá er hvatt til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin leiti jafnframt til almennings með auglýsingu um umsagnir líkt og gert var við breytingar á stjórnarskrá á þinginu 1994-1995.

Minnisblað forseta Alþingis um þinglega meðferð tillagna stjórnlagaráðs er í samræmi við þau orð sem forseti lét falla er hún tók við tillögunum 29. júlí sl. Engin athugasemd var þá gerð við orð forseta.