23.6.2011

Forseti Alþingis opnar Evrópuvefinn, upplýsingaveitu um Evrópusambandið og Evrópumál

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, opnaði í dag Evrópuvefinn, upplýsingaveitu um Evrópusambandið og Evrópumál, á Háskólatorgi HÍ. Alþingi og Vísindavefurinn gerðu með sér þjónustusamning sem felur í sér að uppsetning og rekstur vefsins er í höndum Vísindavefsins, en verkefnið er fjármagnað af Alþingi.


Markmið Evrópuvefsins er að veita almenningi aðgang að hlutlægum, málefnalegum og trúverðugum upplýsingum um Evrópusambandið, aðildarumsókn Íslands og Evrópumál í víðara samhengi.
Ritstjóri er Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus, en auk hans sitja í ritstjórn Erna Bjarnadóttir, landbúnaðarhagfræðingur hjá Bændasamtökunum, Margrét Einarsdóttir, forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, og Sverrir Jakobsson, aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Vefslóð Evrópuvefsins er: evropuvefur.is/