3.12.2009

Breytingar á lögum um rannsóknarnefnd Alþingis

Forsætisnefnd hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Ástæða er til að ítreka nokkur efnisatriði frumvarpsins og útskýra þau nánar, en frumvarpið með greinargerð er öllum aðgengilegt á vef Alþingis.

Frumvarpið er þríþætt:
1. Að Alþingi sé búið undir að taka við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og fjalla um hana eftir skýrum reglum. Í því skyni verði kosin þingmannanefnd til að fjalla um rannsóknarskýrsluna.
2. Að aðgangur að rafrænum gagnagrunnum rannsóknarnefndarinnar sé rýmkaður frá því sem annars væri að óbreyttum lögum sem nú gilda.
3. Að þau þrjú sem eru í rannsóknarnefndinni séu varin fyrir hugsanlegum fjárhagslegum skakkaföllum sem leiða af framlagi þeirra í þágu rannsóknarinnar.

1) Samkvæmt frumvarpinu á að kjósa níu manna þingnefnd sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og mótar tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar.

Rannsóknarskýrslan verður birt í heild sinni um leið og hún verður afhent Alþingi og þar með öllum aðgengileg. Þjóðin öll þarf að bregðast við skýrslunni, svo og margar stofnanir þjóðfélagsins, ekki síst Alþingi sem setti rannsóknina af stað og gegnir stjórnskipulegu hlutverki við umfjöllun um skýrsluna. Í Alþingi er engin eftirlitsnefnd, eins og víða er í þingum í nágrannalöndum okkar. Þess vegna verður þingið að koma slíkri nefnd á fót meðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar er til umfjöllunar.

Tilgangur rannsóknarinnar hefur frá öndverðu verið að skapa grundvöll að almennu, samfélagslegu uppgjöri málsins, sem yrði reist á ítarlegri og vandaðri athugun. Alþingi þarf að bregðast almennt við skýrslunni og draga lærdóm af því sem gerðist haustið 2008. Mikilvægt er að meðferð málsins innan þingsins sé fyrir fram ljós og vönduð þegar skýrslan kemur fram og miðar breytingin að því.

2) Reglur verða settar um varðveislu og aðgang að rafrænum gagnagrunnum sem orðið hafa til við rannsóknina.

Rannsóknarnefndin hefur byggt upp mikinn gagnagrunn úr rafrænum upplýsingum sem nefndin hefur aflað úr gagnagrunnum hinna föllnu banka og hefur hún tengt þessi gögn saman til að fá heildstæða mynd af stöðu, viðskiptum og eignarhaldi þeirra fyrir hrunið. Reglur um bankaleynd og aðrar þagnarskyldureglur gilda almennt um þessar upplýsingar.

Ef ekki verða settar sérstakar reglur um aðgang að þessum gagnagrunnum nefndarinnar eftir að þeim hefur verið skilað til Þjóðskjalasafns Íslands verður ekki unnt að veita aðgang að þeim í heild fyrr en eftir 30 eða 80 ár samkvæmt gildandi lögum. Breytingin á lögunum miðar að því að opna fyrir aðgang að þessum rafrænu gögnum án þess þó að unnt verði að greina til hvaða einstaklinga eða fyrirtækja upplýsingarnar vísa. Þá er henni einnig ætlað að opna fyrir aðgang að gagnagrunnunum til nota við fræðilegar rannsóknir gegn því að gætt sé trúnaðar um þær upplýsingar sem eiga að fara leynt.

3) Rannsóknarnefndinni verður veitt friðhelgi gegn mögulegum málsóknum.

Í lögum um rannsóknina er rannsóknarnefndinni m.a. ætlað að birta í skýrslu sinni viðkvæmar upplýsingar sem eiga almennt að fara leynt, t.d. út af reglum um bankaleynd, ef það er í þágu almannahagsmuna og nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður nefndarinnar.

Mögulega kunna einhverjir að telja á rétti sínum brotið með því og gætu höfðað mál gegn þeim sem unnið hafa að rannsókninni. Breytingin í frumvarpinu miðar að því að koma í veg fyrir að nefndarmennirnir bíði tjón af slíkum málsóknum. Það auðveldar líka rannsóknarnefndinni að taka afstöðu til þess hvað eigi að birta í skýrslunni án þess að nefndarmenn þurfi að óttast að verða sjálfir að grípa til varna í dómsmáli út af því.