20.11.2008

Ráðstefna um eftirlit löggjafarþingsins með framkvæmdarvaldinu

Forseti Alþingis boðar til ráðstefnu, fullveldisdaginn 1. desember á Hótel Hilton Nordica kl. 14, um eftirlit löggjafarþinga með framkvæmdarvaldinu. Á ráðstefnunni verður leitast við að lýsa þessum þætti í starfi þjóðþinganna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Norrænu sérfræðingarnir Fredrik Sejersted, Claus Dethlefsen og Ulf Christoffersson munu fjalla um eftirlitshlutverk þingsins í sínum heimalöndum. Bryndís Hlöðversdóttir, formaður vinnuhóps forsætisnefndar Alþingis um þingeftirlit, mun fjalla almennt um þingeftirlit. Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, setur ráðstefnuna.

Samkvæmt þingræðisreglunni geta ráðherrar ekki setið í embætti nema meiri hluti alþingismanna sætti sig við að þeir gegni ráðherraembætti. Þá getur Alþingi ákært ráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Á grunni þessara heimilda er Alþingi ætlað að veita ráðherrum aðhald og hafa eftirlit með störfum þeirra og þeirri stjórnsýslu sem undir þá heyra. Til að varpa skýrara ljósi á þetta hlutverk Alþingis skipaði forsætisnefnd Alþingis vinnuhóp þriggja sérfræðinga í júní 2008 til að fara yfir núgildandi lagareglur um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu og leggja mat á hvort breytinga sé þörf.

Í nágrannalöndunum hefur verið lögð ríkari áhersla á þetta hlutverk þjóðþinganna en hér á landi. Bæði í Noregi og Danmörku hafa á síðustu áratugum verið gerðar ýmsar breytingar sem miða að því að efla þetta hlutverk. Þá hvílir þessi þáttur í starfsemi þingsins í Svíþjóð á rótgróinni hefð. Í tengslum við störf vinnuhóps forsætisnefndar hefur verið ákveðið að halda ráðstefnu fullveldisdaginn 1. desember 2008 þar sem leitast verður við að lýsa þessum þætti í starfi þjóðþinganna í þessum löndum. Þrír sérfræðingar, hver frá sínu landi, munu þar flytja fyrirlestra á móðurmáli sínu ásamt formanni íslenska vinnuhópsins.

Dagskrá ráðstefnunnar er sem hér segir:

Kl. 14:00
Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, setur ráðstefnuna.

Kl. 14:10
Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor og formaður vinnuhóps um þingeftirlit:
Hvað er þingeftirlit?

Kl. 14:35
Dr. jur. Fredrik Sejersted, prófessor:
Þingeftirlit í Noregi. Þróunin síðustu áratugi.

Kl. 15:00
Claus Dethlefsen, þjóðþingsritari og aðallögfræðingur danska þingsins:
Rannsóknarnefndir og eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu í Danmörku.

Kl. 15:25
Ulf Christoffersson, aðstoðarskrifstofustjóri í sænska þinginu:
Eftirlit þingsins með ríkisstjórn og stjórnvöldum í Svíþjóð.

Kl. 15:50
Kaffihlé.

Kl. 16:10
Umræður.

Kl. 17:00
Ráðstefnulok.

Fundarstjóri verður Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi forseti neðri deildar Alþingis og ráðherra.

Aðgangur er ókeypis. Vinsamlegast látið vita um þátttöku á netfangið skraning@althingi.is.

Um fyrirlesara:
Bryndís Hlöðversdóttir útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1992 cand. jur. Hún starfaði um tíma í dómsmálaráðuneytinu og sem lögfræðingur ASÍ. Bryndís sat á Alþingi 1995—2005 og var þingflokksformaður um skeið. Hún starfar nú sem deildarforseti lagadeildar og aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst og kennir stjórnskipunarrétt við skólann. Bryndís er formaður vinnuhóps forsætisnefndar Alþingis um þingeftirlit.

Fredrik Sejersted, dr. juris, er prófessor við Óslóarháskóla og yfirmaður miðstöðvar um Evrópurétt við lagadeild skólans. Hann hlaut doktorsgráðu árið 2002 og fjallaði ritgerð hans, Kontroll og konstitusjon, um eftirlitshlutverk norska Stórþingsins. Sejersted hefur verið ráðgjafi Stórþingsins og norsku ríkisstjórnarinnar í málum er tengjast stjórnskipun og sat á árunum 2000—2002 í nefnd á vegum þingsins (Frøilandsnefndin) sem fjallaði um eftirlitshlutverk þess.

Claus Dethlefsen er þjóðþingsritari og aðallögfræðingur danska þingsins auk þess að kenna stjórnskipunarrétt við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur verið lögfræðilegur ráðgjafi þingskapanefndarinnar, en ýmis stórmál er varða ráðherraábyrgð hafa komið til kasta hennar. Hann var áheyrnarfulltrúi þingsins í Nordskovnefndinni, sem lagði fram drög að frumvarpi að núgildandi lögum um rannsóknarnefndir og er einn þriggja höfunda að skýringarriti um þá löggjöf.

Ulf Christoffersson er stjórnmálafræðingur að mennt og aðstoðarskrifstofustjóri (kanslichef) í sænska þinginu. Hann var háskólakennari í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla frá 1968—1987 og hefur starfað hjá þinginu frá 1984. Hann hefur sem sérfræðingur tekið þátt í starfi ýmissa nefnda um málefni stjórnskipunar, þingskapa og fjárstjórnarvalds þingsins. Þá hefur hann ritað um stjórnarskrármálefni, opinbera stjórnsýslu og stjórnmálakerfi erlendis.