25.6.2010

Ávarp þingforseta, Ástu R. Jóhannesdóttur

Flutt við þingfrestun 24. júní 2010

Háttvirtir alþingismenn.

Við lok þessa síðasta þingfundar vorþings á Jónsmessudegi vil ég kveðja alþingismenn áður en sumarhlé þingsins hefst.

Eiginlegu vorþingi lauk miðvikudaginn 16. júní sl., nokkurn veginn eins og endurskoðuð starfsáætlun þingsins sagði til um. Þó var ákveðið, m.a. til þess að vanda sérstaklega til lagasetningar er varðar hag margra heimila í landinu, að fresta síðustu umræðu um nokkur frumvörp þar til í dag. Nú er þeim störfum lokið. Öll vonum við að vel hafi til tekist og að létta megi þungan róður margra fjölskyldna á þeim erfiðu tímum sem nú ganga yfir.

Sumarhléið verður óvenjustutt. Fundir þingnefnda hefjast 17. ágúst og þingfundir að nýju í upphafi september. Ég vil leggja áherslu á að á nefndadögum ljúki nefndirnar afgreiðslu þeirra mála sem til umræðu verða á septemberfundunum. Við megum ekki freistast til þess að ætla okkur of mikið þessa fundadaga í september, og höfum í huga að nýtt þing er fram undan, 1. október.

Sérstakt álag er á þingmannanefnd sem kosin var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ef henni gengur vel við verkefni sitt þarf hún forgang í störfum okkar, bæði í ágúst og september.

Á undanförnum vikum hef ég æ betur orðið þess áskynja að þjóðin gerir þær kröfur til okkar að við bætum vinnubrögðin hér á Alþingi og þá ekki síst hér í þingsalnum.

Sú gagnrýni sem við sætum stafar ekki síst af þeirri stjórnmálamenningu og umræðuhefð sem Alþingi er mótað af. Á þeirri stöðu berum við öll ábyrgð, ég ekki síður en aðrir. Ég tel mikilvægt að við reynum að bæta þingið en eyðum ekki kröftum okkar í að tala illa um það.

Í þeirri gagnrýni sem Alþingi sætir eru að mínum dómi margs konar ranghugmyndir sem þarf að leiðrétta. Og við þurfum að leggja aukna áherslu á að kynna starf þingsins og stjórnmálamanna.

Hitt gleymist líka oft, hvað samvinna þingmanna og eindrægni getur verið mikil, umræða góð og vinnubrögð vönduð. Því er síður haldið á loft. Það fer auðvitað minna fyrir slíku í fjölmiðlum. Ég leyfi mér að fullyrða að almennt séu starfshættir nefnda þingsins góðir, þótt auðvitað megi enn ýmislegt bæta í þeim efnum.

Það er því verkefni okkar alþingismanna að þróa og bæta vinnubrögðin hér á Alþingi. Í dag lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis. Frumvarpið er byggt á þeim ábendingum sem koma fram í skýrslu vinnuhóps forsætisnefndar um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Þar eru á ferðinni ýmsar róttækar breytingar, m.a. á nefndakerfi þingsins og gerð tillaga um nýja nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það varð niðurstaða forsætisnefndar að þingforseti mundi einn flytja þetta frumvarp enda er það eingöngu lagt fram til kynningar á þessu stigi málsins. Fram undan er að leita samkomulags milli þingflokka um breytingar á þingsköpunum, bæði þær sem kynntar eru í frumvarpinu og aðrar breytingar sem samstaða gæti náðst um meðal þingmanna. Ég vonast til þess að sú vinna geti hafist í sumar og okkur auðnist að standa saman að breytingum sem til framfara horfa.

Ég teldi líka eðlilegt að þingmannanefndin, sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, taki frumvarpið til skoðunar í þinghléinu.

Ég vil að lokum þakka alþingismönnum öllum og starfsfólki Alþingis fyrir gott samstarf og mikla og góða vinnu á þessu þingi. Ég bið þess að við megum öll hittast heil á ný er alþingismenn koma saman til áframhaldandi starfa að áliðnu sumri.