6.6.2006

ALÞINGI (132. löggjafarþingi) FRESTAÐ FRÁ 3. JÚNÍ 2006 TIL SEPTEMBERLOKA

Þingfundir stóðu frá 1. október til 9. desember 2005, frá 17. janúar til 4. maí og frá 30. maí til 3. júní 2006. Á þingtímanum urðu þingfundadagar alls 100 og þingfundir urðu 125 og stóðu þeir samtals í 628 klst. Lengsti þingfundurinn stóð í rúmlega 16 klst. Lagafrumvörp voru samtals 234 á þinginu. Stjórnarfrumvörp voru 138 og þingmannafrumvörp 93. Frumvörp frá nefndum voru þrjú. 115 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög, óútrædd stjórnarfrumvörp eru 23, eitt kallað aftur. Fimm þingmannafrumvörp urðu að lögum, tvö flutt af þingmönnum og þrjú flutt af nefnd. 91 var óútrætt. Af 234 frumvörpum urðu alls 120 að lögum. Þingsályktunartillögur voru alls 119. Stjórnartillögur voru 19 og þingmannatillögur 100. 26 tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis, þar af voru 18 frá ríkisstjórninni og átta frá þingmönnum. Skýrslur voru samtals 22. Ein skýrsla barst samkvæmt beiðni. Munnlegar skýrslur ráðherra voru þrjár og aðrar munnlegar skýrslur tvær (starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar og ársskýrsla umboðsmanns Alþingis). Bornar voru fram 433 fyrirspurnir á þingskjölum. Af þeim svöruðu ráðherrar 235 fyrirspurnum munnlega og 179 fyrirspurnum skriflega. Óundirbúnar munnlegar fyrirspurnir til ráðherra voru 49. Umræður utan dagskrár voru 47. Atkvæðagreiðslur voru alls 1812, flestar fóru fram með rafrænum hætti en tvisvar sinnum var nafnakall. Í þessum atkvæðagreiðslum voru um 70% samhljóða atkvæði og í um 30% þeirra voru mótatkvæði eða hjáseta. Málsnúmer eru 811. Tala prentaðra þingskjala var 1527.