9.9.2014

Ávarp forseta Alþingis við setningu Alþingis

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti ávarp við setningu Alþingis 9. september 2014.
Háttvirtir þingmenn. Ég endurtek kveðjur mínar til alþingismanna og gesta Alþingis við þingsetningarathöfnina. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alla hv. alþingismenn á nýju löggjafarþingi.

Starfsáætlun Alþingis fyrir komandi þing hefur verið send alþingismönnum og er hún með sama sniði og á undanförnum þingum. Á umliðnum árum hefur okkur tekist oftar en ekki að standa í meginatriðum við þá starfsáætlun sem við setjum fyrir upphaf þings. Ég tel mikilvægt að starfsáætlunin sé marktæk vinnuáætlun Alþingis. Það er þýðingarmikið að hver og einn alþingismaður geti á grundvelli hennar og vikuáætlana skipulagt störf sín vel, ekki síst þegar þinghaldið hefur verið lengt með því að þingfundir hefjast nú í septemberbyrjun. Ég minni á að nú á tímum eru gerðar miklar kröfur til alþingismanna og ráðherra um þátttöku í margs konar stjórnmálastarfi utan við vettvang þingsins.

Á síðasta þingi var unnið að endurskoðun þingskapa og hefur afrakstur þeirrar vinnu verið sendur þingflokkunum til umfjöllunar. Þegar viðbrögð þingflokka liggja fyrir mun þingskapanefndin taka þráðinn upp að nýju og ég vænti þess að hún geti skilað fullbúnum tillögum fyrir lok þessa þings.

Á síðasta ári fékk ég umboð forsætisnefndar til að undirbúa siðareglur fyrir alþingismenn þar sem horft yrði til siðareglna Evrópuráðsþingsins. Niðurstaðan varð sú að láta þýða og staðfæra þær. Nú er kannað hvort samkomulag geti náðst meðal þingmanna um að láta siðareglur Evrópuráðsþingsins gilda, að breyttu breytanda, sem siðareglur þingmanna á Alþingi, a.m.k. fyrst um sinn. Minni ég á að nær öll þjóðþing Evrópu eiga aðild að þingi Evrópuráðsins. Þessar siðareglur hafa nýlega verið sendar þingflokkunum til umfjöllunar og vænti ég þess að þeir taki sem fyrst afstöðu til þeirra.

Þegar alþingismenn koma nú saman til þings mætir þeim nýr ræðustóll í þingsalnum sem þó líkist hinum gamla svo vart má sjá mun á. Stóllinn stendur aðeins framar en forveri hans og er ögn breiðari. Nýi stóllinn er haganlega útbúinn í því skyni að fatlaðir þingmenn eigi greiðan og hindrunarlítinn aðgang að honum. Þannig á það líka að vera, að sem flestum hindrunum fatlaðs fólks sé rutt úr vegi, og hvergi er skyldan ríkari en einmitt hér á Alþingi. Ég vona að hv. alþingismenn kunni breytingunni vel. Um hana hefur verið haft samráð við sem flesta, bæði innan þings og utan, og það var sannarlega gleðiefni þegar fulltrúar Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, komu í Alþingishúsið í gær, prófuðu ræðustólinn og færðu okkur þann blómvönd sem stendur hér í glugganum mér á hægri hönd. Það er ánægjulegt að finna slíkan skilning og vinsemd sem samtök fatlaðra sýna viðleitni Alþingis í þessa veru.

Á síðustu þremur árum hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á löggjöf sem miða að því að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Með breytingum á þingskapalögum var einni fastanefnd þingsins, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, falið eftirlitshlutverkið að meginverkefni. Jafnframt var upplýsingaréttur þingnefnda styrktur, réttur minni hluta til þess að afla gagna og upplýsa skýrður og loks var kveðið á um upplýsingaskyldu ráðherra. Síðast en ekki síst voru sett lög um rannsóknarnefndir árið 2011 og á grundvelli þeirra hafa tvær nefndir starfað.
Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að með því sem hér hefur verið lýst tók Alþingi meðvitaða ákvörðun um að styrkja eftirlitshlutverk sitt.

Hér var á margan hátt farið inn á nýjar brautir. Þær þrjár rannsóknarnefndir, sem þingið hefur skipað, hafa allar lokið störfum. Vitaskuld eru skiptar skoðanir um hvernig til hefur tekist. Á það bæði við um efni máls og þann kostnað sem starfsemi þeirra hefur haft í för með sér. Ljóst er að heildarkostnaður af starfi þessara nefnda hefur orðið mun meiri en áformað var. Ekki er þó sanngjarnt að ræða eingöngu um heildartölur í þessu sambandi heldur skoða reynsluna af hverri nefnd fyrir sig enda er hún sannarlega býsna mismunandi.

Nú er mjög mikilvægt að við lærum af reynslunni. Forsætisnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum fyrir ári að hefja slíka endurskoðun og er hún nú komin vel á veg. Jafnframt ákvað nefndin að hefjast ekki handa við frekari störf rannsóknarnefnda fyrr en slík endurskoðun lægi fyrir og búið væri að breyta lögum sem nauðsynlegt teldist. Var það gert þrátt fyrir að fyrir lægi samþykkt Alþingis um starf einnar rannsóknarnefndar til viðbótar við þær sem þegar hafa lokið störfum. Það er því ljóst að þessi mál hafa verið tekin föstum tökum, enda er ákaflega mikilvægt að vel takist til með þetta úrræði sem fest hefur verið í lög og er þýðingarmikill þáttur eftirlitshlutverks Alþingis sem ríkur vilji hefur staðið til að efla.

Á starfstíma nefndanna hefur Alþingi reynt að fylgjast sem best með kostnaði við starfsemi þeirra. Þar er þó við margháttaðan vanda að etja. Rannsóknarnefndirnar eru í störfum sínum óháðar fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi, eins og segir í lagatextanum. Það eru þannig ekki lagalegar heimildir til íhlutunar um verklag rannsóknarnefnda, umfram það sem Alþingi ákveður með samþykktum sínum um verkefni þeirra. Þetta fyrirkomulag leiðir líka af eðli máls. Nefndunum er meðal annars ætlað að fjalla um mál sem eiga uppruna sinn í ákvörðunum Alþingis. Íhlutun af okkar hálfu um efnistök gætu því ekki samrýmst því hlutverki sem rannsóknarnefndunum er ætlað. Það er því úr vöndu að ráða þegar í ljós kemur í miðju kafi að kostnaðurinn er umfram það sem Alþingi áætlaði. Við þær aðstæður eru ekki margir kostir tiltækir, nema vitaskuld að stöðva vinnuna áður en henni lýkur. Það hefur þó aldrei komið til álita, enda hafa engar kröfur verið settar fram um slíkt.

Rannsóknarnefndir af þeim toga sem við búum við þekkjast í fleiri þjóðþingum. Athyglisvert er að mjög svipaðar umræður og hér fara fram eiga sér stað í öðrum löndum, ekki síst um kostnaðarhliðina. Tökum dæmi frá Danmörku. Þar hafa fjórar rannsóknarnefndir lokið störfum og annar eins fjöldi er enn að verki. Starfstími þeirra var allt frá tveimur til tíu ára og heildarkostnaðurinn er á fjórða milljarð íslenskra króna. Þar og í fleiri löndum fer nú fram umræða og endurskoðun á þessu fyrirkomulagi, rétt eins og hér.

Nauðsynlegt er að lagalegt úrræði sé til staðar um rannsóknarnefndir þótt varla verði þær reglulegur liður í starfsemi Alþingis. Gætum að því að stofnun rannsóknarnefndanna þriggja tengist mjög afdrifaríkum atburðum í sögu síðustu ára. Það verður því trauðla tilefni til svo umfangsmikilla rannsókna á næstu árum. Það er þó augljóst að standa þarf að undirbúningi mála með öðrum og markvissari hætti en gert hefur verið. Í því sambandi má nefna eftirfarandi:

Íhuga þarf vel hvort tilefni sé til skipunar rannsóknarnefnda. Þar þarf sérstaklega að skoða hvort uppfyllt sé það skilyrði laganna að um sé að ræða mikilvægt mál sem almenning varðar. Miklu varðar einnig að áður en nefndin hefur störf sé rækilega farið ofan í umfang rannsóknar, gögn og heimildir, og kostnaður vandlega áætlaður. Afla þarf traustra upplýsinga um væntanlegt verkefni og mætti hugsa sér að leitað verði ráðgjafar sérfræðinga með reynslu og þekkingu á störfum rannsóknarnefnda og á því viðfangsefni sem ætlað er að rannsaka. Mikilvægt er að þetta eigi sér stað áður en kemur að því að afmarka endanlega umboð nefndarinnar og gera tillögu um formann og aðra nefndarmenn. Með þessum hætti verður umboð nefndanna skýrara og grunnurinn að skipan þeirra traustari.

Þá er rétt að hafa einnig hugfast að ýmis önnur úrræði en skipun rannsóknarnefndar eru þegar tiltæk, svo sem að Ríkisendurskoðun sé falin athugun á tilteknu máli. Nefna má í þessu sambandi að í Danmörku hefur því verið velt upp hvort ástæða sé til þess að opna leið fyrir úrræði sem ekki séu jafn viðurhlutamikil og rannsóknarnefndirnar og því ekki jafn tímafrek og kostnaðarsöm.

Þessi mál verða viðfangsefni okkar á næstu mánuðum. Vonir mínar standa til þess að þessari vinnu ásamt nauðsynlegum lagabreytingum ljúki á þessu þingi.