5.6.2013

Setning Alþingis, 142. löggjafarþings, 6. júní 2013

Þingsetningarathöfnin hefst kl. 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, starfandi forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar kl. 13.25. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, predikar. Séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands. Steingrímur Þórhallsson organisti leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.
Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, starfandi forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 142. löggjafarþing, og að því loknu tekur starfsaldursforseti við fundarstjórn og stjórnar kjöri kjörbréfanefndar. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til klukkan fjögur síðdegis.

Þegar þingsetningarfundi er fram haldið klukkan fjögur síðdegis verða kjörbréf afgreidd og drengskaparheit unnin. Starfsaldursforseti stjórnar síðan kjöri forseta Alþingis, kosnir verða varaforsetar og kosið verður í fastanefndir Alþingis og til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi á aðild að. Að síðustu verður hlutað um sæti þingmanna.

Bein útsending verður frá þingsetningarfundi í Ríkisútvarpinu sjónvarpi og á Rás 1. Einnig á sjónvarpsrás Alþingis og á vef Alþingis.

Yfirlit helstu atriða þingsetningar:

Kl. 13.25 Þingmenn ganga til kirkju.
Kl. 13.30 Guðsþjónusta.
Kl. 14.05 Þingmenn ganga úr kirkju í Alþingishúsið.
Kl. 14.11 Forseti Íslands setur þingið.
Kl. 14.30 Strengjakvartett flytur Hver á sér fegra föðurland. Strengjakvartett: Una Sveinbjarnardóttir, fiðla, Zbigniew Dubik, fiðla, Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla, og Margrét Árnadóttir, selló.
Kl. 14.31 Starfsaldursforseti tekur við fundarstjórn og flytur minningarorð.
Kl. 14.36 Strengjakvartett flytur Ísland ögrum skorið.
Kl. 14.40 Starfsaldursforseti stjórnar kjöri kjörbréfanefndar.
Hlé á þingsetningarfundi fram til kl. 16.00.

Framhald þingsetningarfundar kl. 16.00:

Kl. 16.00 Kjörbréf afgreidd, undirritun drengskaparheita.
Kl. 16.25 Starfsaldursforseti stjórnar kjöri forseta Alþingis.
Kl. 16.30 Forseti Alþingis tekur við fundarstjórn og flytur ávarp.
Kl. 16.40 Kosning sex varaforseta.
Kl. 16.45 Nefndakjör (fastanefndir og alþjóðanefndir).
Kl. 17.10 Hlutað um sæti þingmanna.
Kl. 17.25 Fundi slitið.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða mánudagskvöldið 10. júní. Bein útsending verður frá umræðunni (útvarpað og sjónvarpað).