1.10.2001

Setning Alþingis (127. löggjafarþings) mánudaginn 1. október 2001

Þingsetningarathöfnin hófst kl. 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, ráðherrar og alþingismenn gengu fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu kl. 13.25. Séra Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ, predikaði og þjónaði fyrir altari ásamt biskupi Íslands. Organisti Dómkirkjunnar, Marteinn H. Friðriksson, lék á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar söng við athöfnina. Að guðsþjónustu lokinni gengu forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, þingmenn og aðrir gestir til þinghússins.
Forseti Íslands setti þingið og að því loknu tók starfsaldursforseti þingsins, Páll Pétursson félagsmálaráðherra, við fundarstjórn og stjórnaði kjöri forseta Alþingis sem flutti ávarp. Þingsetningarfundi var síðan frestað til kl. 16 en á meðan halda þingflokkar fundi.
Þegar þingsetningarfundi var fram haldið voru kjörnir varaforsetar og kjörið var í fastanefndir Alþingis og til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi er aðili að. Að síðustu var hlutað um sæti þingmanna annarra en ráðherra og forseta Alþingis.

Yfirlit helstu atriða þingsetningar:

Kl. 13.25 Þingmenn ganga til kirkju.
Kl. 13.30 Guðsþjónusta.
Kl. 14.05 Þingmenn ganga úr kirkju í Alþingishúsið.
Kl. 14.10 Forseti Íslands setur þingið.
Kl. 14.15 Aldursforseti tekur við fundarstjórn og stjórnar kjöri forseta Alþingis.
Kl. 14.20 Forseti Alþingis tekur við kjöri og flytur ávarp.
Kl. 14.25 Hlé - þingflokksfundir.
Kl. 16.00 Útbýting þingskjala (m.a. fjárlagafrumvarps), tilkynningar o.fl.
Kosning fjögurra varaforseta.
Nefndakjör (fastanefndir og alþjóðanefndir).
Hlutað um sæti þingmanna.

Fundi slitið.

Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Alþingis í síma 563 0696 eða 894 6519.