6.5.2002

Alþingi, 127. löggjafarþingi, hefur verið frestað

Þingið stóð yfir frá 1. október til 14. desember 2001 og frá 22. janúar til 3. maí 2002. Á þingtímanum urðu þingfundardagar alls 96.

Þingfundir hafa verið 138 og stóðu þeir samtals í 619 klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í u.þ.b. 17 klukkustundir.

Lagafrumvörp voru samtals 215. Af þeim voru stjórnarfrumvörp 135 og þingmannafrumvörp 80. Af stjórnarfrumvörpum voru 111 afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 24. Þá urðu 8 þingmannafrumvörp að lögum, einu var vísað til ríkisstjórnarinnar, en 71 þingmannafrumvörp eru óútrædd. Af 215 frumvörpum urðu alls 119 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 131. Af þeim voru stjórnartillögur 25 og þingmannatillögur 106. Alls voru 37 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, 4 var vísað til ríkisstjórnarinnar og 90 eru óútræddar.

Skýrslur voru samtals 28. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru 3 og bárust 2 skriflegar skýrslur. Aðrar skýrslur lagðar fram voru 26.

Bornar voru fram 366 fyrirspurnir. Allar voru þessar fyrirspurnir afgreiddar nema 22. Munnlegar fyrirspurnir voru 177 og af þeim var 172 svarað, 3 voru kallaðar aftur. Beðið var um skrifleg svör við 189 fyrirspurnum og bárust 172 svör, 3 voru kallaðar aftur.

Alls voru til meðferðar í þinginu 741 mál. Þar af voru 533 afgreidd og tala prentaðra þingskjala var 1496.

Á þessu þingi voru 14 dagar eingöngu helgaður nefndastarfi, fyrir utan reglubundna nefndafundi yfir þingtímann. Á yfirstandandi þingi hafa verið haldnir 367 nefndafundir og eru það 30 fundir að meðaltali á hverja fastanefnd. Alls stóðu nefndafundir í 621 klukkustund, að meðaltalið 52 klukkustundir á nefnd. Eru þá ekki taldir aðrir fundir, svo sem meirihlutafundir. Á fundi nefndanna komu 1817 gestir.

Alls var 287 málum vísað til fastanefnda þingsins og afgreiddu þær frá sér 158 mál. Samtals voru 185 þingmál send til umsagnar. Nefndum bárust 2100 erindi um þingmál. Auk þessa hafa nefndir fjallað um mál að eigin frumkvæði og nokkrar nefndir hafa farið í vettvangsferðir á þessu þingi.