28.5.2003

Alþingi, 129. löggjafarþingi, hefur verið frestað

Alþingi, 129. löggjafarþing, kom saman til fundar mánudaginn 26. maí 2003. Þinginu var frestað daginn eftir, 27. maí. Þingfundir urðu fjórir og stóðu í átta og hálfa klukkustund. 

Í upphafi þings voru kjörbréf aðalmanna og jafnmargra varamanna rannsökuð. Af 18 nýjum þingmönnum höfðu 13 ekki tekið sæti á Alþingi áður og undirrituðu þeir drengskaparheit að stjórnarskránni. Halldór Blöndal var kosinn forseti Alþingis og kosnir voru sex varaforsetar. Kosið var í fastanefndir Alþingis og alþjóðanefndir. Nefndir héldu stutta fundi og kusu sér formann og varaformann. Tilkynnt var um stjórnir þingflokka.

Þingið kaus enn fremur í stjórnir, nefndir og ráð utan þings samkvæmt lögum. 

Tvær þingsályktunartillögur voru lagðar fram á þinginu og var önnur þeirra samþykkt á síðasta fundinum, þingsályktun um frestun á fundum Alþingis. Var Alþingi síðan frestað til 30. september 2003.