2.10.2013

Stefnuræða forsætisráðherra

Umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra verður útvarpað og sjónvarpað miðvikudaginn 2. október, kl. 19.40. Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir. Forsætisráðherra hefur 20 mínútur til framsögu en aðrir þingflokkar en þingflokkur forsætisráðherra hafa 12 mínútur í fyrstu umferð, í annarri umferð hafa þingflokkarnir 6 mínútur en í þeirri þriðju 5 mínútur hver þingflokkur.

Röð flokkanna er í öllum umferðum þessi: Framsóknarflokkur, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð og Píratar.

Fyrir Framsóknarflokk tala forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, í fyrstu umferð, í annarri umferð Líneik Anna Sævarsdóttir, 5. þm. Norðausturkjördæmis, og í þriðju umferð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ræðumenn Samfylkingarinnar verða í fyrstu umferð Árni Páll Árnason, 4. þm. Suðvesturkjördæmis, í annarri umferð Oddný G. Harðardóttir, 6. þm. Suðurkjördæmis, og í þeirri þriðju Helgi Hörvar, 9. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.

Ræðumenn fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð verða í fyrstu umferð Katrín Jakobsdóttir, 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri umferð Lilja Rafney Magnúsdóttir, 8. þingmaður Norðvesturkjördæmis og í þriðju umferð Árni Þór Sigurðsson, 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.

Ræðumenn fyrir Sjálfstæðisflokk verða í fyrstu umferð fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson, í annarri umferð Haraldur Benediktsson, 4. þingmaður Norðvesturkjördæmis og í þriðju umferð iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiður E. Árnadóttir.

Fyrir Bjarta framtíð tala í fyrstu umferð Guðmundur Steingrímsson, 7. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í annarri Björt Ólafsdóttir, 6. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, og í þriðju umferð Páll Valur Björnsson, 10. þingmaður Suðurkjördæmis.

Fyrir Pírata tala í fyrstu umferð Birgitta Jónsdóttir, 12. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í annarri umferð Jón Þór Ólafsson, 10. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, og í þriðju umferð Helgi Hrafn Gunnarsson, 10. þingmaður Reykjavíkur norður.