1.10.2013

Ávarp forseta Alþingis við þingsetningu

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti ávarp við setningu Alþingis 1. október 2013
 
Háttvirtir þingmenn. Ég býð háttvirta alþingismenn og gesti Alþingis við þingsetningarathöfnina velkomna. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alla háttvira alþingismenn á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til gæfu.

Fram undan er annasamur vetur. Ný ríkisstjórn mun kynna áhersluatriði sín sem vænta má að birtist í aðskiljanlegum þingmálum hennar. Sömuleiðis má gera ráð fyrir að stjórnarandstaðan leggi fram þingmál til áréttingar á sínum sjónarmiðum. Starfstíma þingsins verður skorinn nokkuð þröngur stakkur þar sem sveitarstjórnarkosningar verða í lok maí og viðtekið er að þingið lýkur störfum sínum nægilega snemma til þess að skapa svigrúm fyrir kosningabaráttu á sveitarstjórnarstiginu. Þessi staðreynd setur því mark sitt á starfsáætlun Alþingis í vetur. Engu að síður verða þingdagar álíka margir og vanalega en nefndadagar ívið fleiri.

Með skipulegum vinnubrögðum á Alþingi á þingið að geta lokið verkefnum sínum innan þess tímaramma sem starfsáætlunin setur okkur. Þetta verður þó alltaf háð því að þingmál berist í tæka tíð svo að þingmönnum gefist færi á því að ræða þau nægjanlega í þingsal og fjalla um í nefndum með vönduðum og skilvirkum hætti. Það er því aldrei of oft minnt á mikilvægi þess að þingmál, sem ætlunin er að afgreiða nú í vetur, verði lögð fram á Alþingi í tæka tíð.

Nú í haust var kynnt könnun á trausti almennings í garð Alþingis. Greinilegt er á viðbrögðum alþingismanna að hjá þeim er ríkur vilji til þess að efla traust almennings á störfum Alþingis. Í þessu samhengi skiptir það miklu máli sem fram kemur í þessari könnun að Alþingi sem stofnun nýtur trausts. Það var alls ekki sjálfgefið. Við aðstæður eins og þær sem hér hafa ríkt gat það nefnilega vel gerst að upp vöknuðu spurningar sem vörðuðu sjálfa stjórnskipanina í anda þess að brjóta niður meginreglur og hefðir sem samfélag okkar byggir á. Enga veigamikla tilhneigingu í þá átt má hins vegar sjá af þeim svörum sem birtust í könnuninni.

Í könnuninni birtist hins vegar skýrt ákall um árangur við stjórn landsins. Í henni má skynja annars vegar þá tilfinningu fólks að nægjanlegur árangur hafi ekki náðst og hins vegar að þau mál sem helst hafa einkennt störf þingsins hafi ekki verið þau sem almenning varðar mestu. Þetta endurspeglist síðan í umræðum á Alþingi, lengd þeirra, talsmáta og öðru slíku sem hafi borið vitni um skeytingarleysi gagnvart því sem mestu máli skipti að mati fólksins í landinu.

Af þessu má mikinn lærdóm draga sem við, hver og einn alþingismaður, þurfum að íhuga vel á komandi vikum, mánuðum og missirum. 
Snar þáttur í þessu lýtur að þingsköpunum sjálfum. Þau eru leikreglur Alþingis og ráða því miklu um þann árangur sem við öll vonum að verði sem mestur af störfum okkar.

Nú verður innan skamms hafist handa við endurskoðun þingskapanna með þátttöku allra þingflokka. Á síðasta kjörtímabili var unnið mikið, þarft og verðmætt starf sem ætlunin er að byggja á. Augljóst er að viðkvæmasti og erfiðasti þáttur þessa verkefnis lýtur að fyrirkomulagi umræðna á Alþingi. Því er það fagnaðarefni að skýr vilji hefur komið fram um að reynt verði að endurskoða þann þátt þingskapanna og freista þess að láta slík ákvæði taka gildi jafnhliða öðrum breytingum á kjörtímabilinu. Auðna mun svo ráða hvernig það gengur.

Fyrirkomulag umræðna er með ákaflega misjöfnum hætti í þjóðþingum almennt. Og gleymum aldrei einu, umræður í þingsal eru ekki ill nauðsyn heldur skýr og hefðbundin birtingarmynd þess lýðræðislega fyrirkomulags sem þjóðskipulag okkar byggir á. Alþingi er vettvangur ólíkra sjónarmiða og á beinlínis að laða þau fram í umræðunni. Til þess þarf því að vera eðlilegt rými. Hætt er við að ef of langt er gengið í að herða að umfangi þeirra glatist sá nauðsynlegi þáttur þar sem kjörnir fulltrúar, sem hafa sótt sér lýðræðislegt umboð til þjóðarinnar í frjálsum kosningum, taka þátt.

Umræður í þingsal gegna því lykilhlutverki í samfélagi okkar og gefa færi á nauðsynlegum skoðanaskiptum. Á Alþingi og í fleiri þjóðþingum hafa langar umræður um þingmál einnig oft orðið eina haldreipi stjórnarandstöðu í glímu hennar við ríkisstjórn á hverjum tíma. Slík viðbrögð geta þess vegna verið eðlileg því þó að í lýðræðislegum ríkjum ráði meiri hlutinn á endanum er réttur minni hlutans einnig ríkur. „Ofríki meiri hlutans“ er þekkt hugtak úr allri umræðu um stjórnskipan allt frá 18. öldinni.

Þess vegna er eðlilegt og óhjákvæmilegt að jafnframt því að við fjöllum um leiðir til að bæta umræðuhefðina og afmarka umræður betur en núna er gert ræðum við leiðir til þess að auka möguleika alþingismanna í stjórn og stjórnarandstöðu til þess að hafa áhrif á niðurstöðu mála með öðrum hætti en löngum umræðum í þingsal. Í því sambandi er nærtækast að efla nefndavinnu þingsins. Við verðum einnig að gera mjög ríkar kröfur um að mál séu lögð fram í tæka tíð svo að þingmenn hafi tóm til þess að ræða þau og grandskoða að fengnu áliti aðila úr þjóðfélaginu sem láta sig þau varða og hafa á þeim sérfræðilega þekkingu.

Sömuleiðis kemur mjög til álita að kveðið sé á um það í þingsköpum að mál séu aldrei skemur inni í þinginu en svo að færi gefist á því að gaumgæfa þau og vinna eins vel og kostur er. Má í því sambandi hugsa sér að kveðið sé á um það í þingsköpum að tiltekinn dagafjöldi líði almennt frá því að mál eru lögð fram og þar til þau hljóti afgreiðslu, svo sem eins og í danska þinginu. Þar með á að vera tryggð aðkoma þingsins að löggjöfinni með viðunandi hætti og möguleikinn til þess að hafa áhrif á málatilbúnaðinn verður meiri. Athyglisvert er að þau þjóðþing þar sem umræður í þingsal eru almennt skemmri en hér hafa slíkt fyrirkomulag. Dæmi um það er þýska þingið þar sem umræður eru tiltölulega litlar í þingsal en sjálfstæði þingnefnda mikið.

Verkefni okkar í vetur við endurskoðun þingskapanna er því ákaflega þýðingarmikið í miklu stærra samhengi en kannski virðist við fyrstu sýn. Ef vel tekst til eigum við þingmenn þess vegna að geta gert áætlun, á grundvelli nýrra þingskapa, um bætt vinnubrögð sem gerir allt í senn; eykur skilvirkni í störfum, tryggir lýðræðislegan rétt þingmanna í stjórn og stjórnarandstöðu og bætir lagasetningu.

Þessum þingfundi verður nú brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis. 

Ég bið hæstvirtan forsætisráðherra að ganga fremstur með mér úr salnum til Skála. Þessum fundi verður nú frestað til kl. 16.