29.9.2006

Setning Alþingis mánudaginn 2. október 2006

Þingsetningarathöfnin hefst kl. 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu kl. 13.25. Séra Dalla Þórðardóttir, sóknarprestur í Miklabæjarprestakalli og prófastur Skagafjarðarprófastsdæmis, predikar og þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, herra Karli Sigurbjörnssyni. Organisti Dómkirkjunnar, Marteinn H. Friðriksson, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 133. löggjafarþing, og að því loknu tekur starfsaldursforseti, Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður, við fundarstjórn, minnist látins fyrrv. alþingismanns og stjórnar síðan kjöri forseta Alþingis. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 4 síðdegis.

Þegar þingsetningarfundi er fram haldið kl. 4 síðdegis verða kosnir varaforsetar og kosið verður í fastanefndir Alþingis og til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi er aðili að. Að síðustu verður hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 verður útbýtt kl. 4 síðdegis (við framhald þingsetningarfundar).

Yfirlit helstu atriða þingsetningar, áætlaðar tímasetningar:

Mánudagur 2. október:
Kl. 13.25 Þingmenn ganga til kirkju.
Kl. 13.30 Guðsþjónusta.
Kl. 14.05 Þingmenn ganga úr kirkju í Alþingishúsið.
Kl. 14.10 Forseti Íslands setur þingið.
Kl. 14.20 Starfsaldursforseti tekur við fundarstjórn, minnist fyrrv. alþingismanns er látist hefur og stjórnar síðan kjöri forseta Alþingis.
Kl. 14.35 Forseti Alþingis tekur við kjöri og flytur ávarp.
Kl. 14.45 Hlé á þingsetningarfundi fram til kl. 16.

Frh. þingsetningarfundar kl. 4 síðdegis:
Kl. 16.00 Útbýting þingskjala (m.a. fjárlagafrumvarps), tilkynningar o.fl.
Kosning sex varaforseta.
Nefndakjör (fastanefndir og alþjóðanefndir).
Hlutað um sæti þingmanna.
Fundi slitið (um kl. 16.30).

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða á þriðjudagskvöld 3. október, kl. 19.50.

Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 fimmtudaginn 5. október og hefst umræðan kl. 10.30.