19.6.2013

Ávarp forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní 2013

Nú við upphaf þingfundar vil ég minnast þess að í dag er kvenréttindadagurinn, en 19. júní hefur hérlendis um langt skeið verið helgaður kvenréttindum. Að forgöngu Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands og fleiri samtaka verður dagsins að venju minnst með ýmsum hætti.
Dagurinn á rætur í því að 19. júní 1915 staðfesti konungur Íslands og Danmerkur, Kristján X., frumvarp sem Alþingi hafði samþykkt um kosningarrétt kvenna og kjörgengi til Alþingis. 19. júní 1915 markaði því þáttaskil í kvenréttindabaráttu á Íslandi en baráttan fyrir kosningarrétt og kjörgengi kvenna til Alþingis hafði staðið yfir allt frá árinu 1885.

Eins og þingheimi er kunnugt samþykkti Alþingi fyrir lok síðasta þings ályktun um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningarréttar og kjörgengis íslenskra kvenna 19. júní 2015. Samkvæmt ályktuninni var Alþingi falið að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka íslenskra kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til þess að safna hugmyndum og gera tillögur um hvernig minnast skuli tímamótanna, auka jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum.

Í samræmi við þessa ályktun Alþingis hyggst ég kalla til slíks undirbúningsfundar fyrir upphaf haustþings. Eitt af verkefnum þess fundar verður að kjósa fimm manna framkvæmdanefnd sem móti endanlegar tillögur og annist frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015.

Forveri minn í starfi, Ásta R. Jóhannesdóttir, sýndi þessu máli mikinn áhuga og fyrir hennar forgöngu var á síðasta ári haldinn fundur í Alþingishúsinu með fulltrúum kvenna- og jafnréttissamtaka á Íslandi til að ræða þetta mál. Þar voru reifaðar fjölmargar hugmyndir um hvernig væri viðeigandi að halda upp á þessi merku tímamót í sögu landsins. Þær hugmyndir verða gott veganesti nú þegar hin formlega undirbúningsvinna fer af stað.

Ég vil að lokum fyrir hönd Alþingis óska íslenskum konum til hamingju með daginn.