17.6.2013

Hátíðarræða forseta Alþings, Einars K. Guðfinnssonar, í Búðardal 17. júní 2013

Góðir Dalamenn og aðrir áheyrendur.

Hér er nóg um björg og brauð,
berirðu töfrasprotann.
Þetta land á ærinn auð,
ef menn kunna að nota hann.

Þannig orti skáldið Jón Ólafsson á 19. öldinni. Þó orð hans hafi að sjálfsögðu verið fullgild þegar þau voru sögð eiga þau miklu fremur við í dag. Þegar þessi vísa hraut af vörum skáldsins, var Ísland eitt fátækasta land Evrópu. Atvinnuháttum, vinnubrögðum og kjörum fólks mátti helst líkja við það sem við þekkjum bágast í heiminum í dag. Frásagnir þess tíma bera vitni um óskaplega harða lífsbaráttu sem þó gaf svo lítið í aðra hönd. Lífsbaráttan hafði eiginlega bara einn tilgang: Að halda lífi.
Saga 20. aldarinnar á Íslandi er í rauninni ein samfelld ævintýra- og framfarasaga. Við brutumst á ótrúlega skömmum tíma úr því að vera þjóðfélag örbirgðarinnar í að verða þjóðfélag allsnægta; þjóðfélag mikilla tækifæra. Og þetta gerðist á undraskömmum tíma. Gleymum því ekki að það er ekki nema ríf öld síðan að vélaraflið leysti af hólmi árar og segl. Við höfðum stundað sjóinn í nær eitt þúsund ár nánast með sama hætti og þegar land var numið. Og sömu sögu var að segja úr landbúnaði. 20. öldin var á hinn bóginn öld mikilla framfara, ótrúlegra framfara.
Það er auðvitað engin tilviljun að þessi framfarasókn samfélagsins á öllum sviðum er nátengd þjóðfrelsisbaráttunni. Þeirri baráttu fylgdi framfarahugur. Þeir sem stóðu í fararbroddi sjálfstæðisbaráttunnar gerðu sér grein fyrir því að með sjálfstæðinu kæmu tækifærin til þess að ráða sínum málum og vinna að heill þjóðarinnar. Sjálfstæðið varð þess vegna uppspretta tækifæranna.
Í heimi nútímans er sjálfstæðið undirorpið margvíslegum fjölþjóðlegum samskiptum. Frjáls viðskipti, hindrunarlaus samskipti og samstarf við lýðræðisþjóðir um öryggi þjóðarinnar eru þess vegna eðlilegur hluti sambúðar við aðrar þjóðir; hvort sem þær eru nær eða fjær. En slík samskipti hljóta eðli málsins vegna að vera á forsendum okkar. Sjálfstæði og fullveldi okkar tryggir að svo sé. Það erum við sem ráðum okkar för.
Það varðar því miklu að þannig geti það orðið. Allar ákvarðanir okkar hljóta þess vegna að taka mið af þessu. Um leið og við kjósum góð og hrindrunarlítil samskipti við aðrar þjóðir, gætum við þess að þau leiði ekki til þess að hið eftirsótta sjálfstæði bíði hnekki. Því þá er þess skammt að bíða að frelsi okkar til þess að rækta tengsl við aðrar þjóðir á okkar forsendum breytist í andhverfu sína.
Hverri vegsemd fylgir vandi. Okkar vandi er í hnotskurn vandi lítilla þjóða í viðsjárverðum og flóknum heimi. Um leið og við ræktum tengsl við aðrar þjóðir okkur sjálfum til hagsbóta, þurfum við að tryggja rétt okkar og stöðu sem frjálsrar og fullvalda þjóðar. Um þetta snúast meðal annars umræður sem nú fara fram um stöðu okkar sem þjóðar í heiminum. Umræðan um Evrópusambandið lýtur meðal annars að þessari grundvallarspurningu. Svo sannarlega erum við Evrópuþjóð en það þýðir ekki að við viljum verða Evrópusambandsþjóð.
Framförum fylgja aukin tækifæri. Stóraukin menntun þjóðarinnar skapar okkur samkeppnisstöðu þar sem heimurinn er undir. Það er gaman að ræða þessi mál við ungt fólk sem skyggnist vítt um sviðið og spyr hvar tækifærin sé að finna. Sístækkandi hluti Íslendinga hefur sótt sér menntun, þekkingu og starfsreynslu á meðal erlendra þjóða og telur landamæri litla hindrun. Við erum í samkeppni við aðrar þjóðir um þetta unga fólk; fólkið sem á að erfa landið. Fólkið sem á að bera uppi samfélagið í framtíðinni.
Verkefni okkar er því vandasamt og flókið. Það er hvorki meira né minna en að gera Ísland samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði svo að við megum njóta ávaxtanna af hæfileikum þjóðarinnar og getu um ókomin ár.
Þetta hefur okkur ekki tekist hin seinni ár. Afleiðingar fjármálahrunsins og viðbrögðin við því hafa gert það að verkum að þúsundir Íslendinga finna viðspyrnu krafta sinna fremur utan lands en innan. Þetta er grafalvarleg staða sem fyrirsjánlega mun skaða okkur til skemmri jafnt og lengri tíma. Verkefni dagsins er að snúa þessari þróun við. Gera Ísland að samfélagi sem stenst þeim bestu snúning. Tryggja að Ísland sé eftirsóknarverður og öfundsverður staður til þess að lifa og búa. Það nægir ekki að vera þar sem við erum í dag; þó mestum hluta íbúa heimsins þyki sú staða eftirsóknarverð. Við heyjum samkeppnina við þær þjóðir sem fremstar standa í heiminum. Þá samkeppni verðum við að standast.
En það er önnur hlið þessa máls, sem einnig er alvarleg og örugglega eitt stærsta mikilvægasta viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir. Um leið og okkur svíður að sjá ungt fólk yfirgefa landið okkar, er óumflýjanlegt að við ræðum annan fólksflótta. Fólksflóttann sums staðar af landsbyggðinni. Það er eitt versta samfélagsmein okkar, sem okkur hefur ekki auðnast að takast á við með sómasamlegum hætti.
Vandinn er margbrotinn. Samfélagið er svo miklu flóknara en áður. Fjölbreytni atvinnulífsins, aukið menntunarstig og margbreytileg tækifæri á mörgum sviðum gera það að verkum að þau úrræði sem við beittum forðum og kölluðum byggðastefnu eiga ekki við í dag. Við þurfum ný meðöl til þess að beita gegn þessari vá.
Það er rangt, sem við höfum gert í alltof miklum mæli, að skipta landinu í höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Landsbyggð er ekki eintöluorð, heldur fleirtöluorð. Landsbyggðirnar eru nefnilega margar. Sums staðar hefur þróunin verið bærileg. Í heild sinni hefur nefnilega orðið íbúafjölgun á landsbyggðinni. En það segir ekki söguna alla. Því þó svo að utan höfuðborgarsvæðisins hafi orðið talsverð fólksfjölgun á síðustu áratugum, er þessu mjög misskipt. Langstærsti hluti þess sem við höfum kallað landsbyggðina, þarf fyrst og fremst á almennum aðgerðum að halda til þess að jafna samkeppnisstöðuna við höfuðborgarsvæðið. Þessar landsbyggðir þurfa tækifæri til að blómstra, m.a. með því að taka til sín þjónustu í samræmi við mannfjölda, samgöngubætur sem styrkja atvinnu- og þjónustusvæði og þess háttar. Hlutdeild þeirra í skatttekjum ríkisins er nálægt því að geta staðið undir því. Sé það gert mun sá hluti landsbyggðarinnar klára sig vel. Hins vegar er það annar hluti, sem ekki mun standast þessa samkeppni án þess að beitt sé sérstökum, skilgreindum og markvissum aðgerðum. Þar búa um 8% landsmanna, eða kannski um 30 þúsund manns. Það er ekki ofviða okkur, ríkri þjóð, að grípa til slíkra aðgerða. Þær verða ekki kostnaðarsamar fyrir svo ríkt samfélag. Og miklu kostnaðarminni en að láta skeika að sköpuðu. Því ef ekkert er að gert mun illa fara með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði fyrir þjóðfélagið í heild, svo ekki sé talað um byggðirnar og íbúana sem í hlut eiga.
En hvaða landsvæði er ég að tala um?
Hér er ég á grundvelli talnalegra staðreynda að vísa til eftirfarandi landsvæða:
Norðvestursvæðið, Snæfellsnes, Dalir, Vestfirðir, Strandir og Húnavatnssýslur. Þetta er landsvæði sem er í of mikilli hnignun. Ástandið er þó mjög mismunandi, ekki síst hvað samgöngur varðar þar sem t.d. sunnanverðir Vestfirðir eru öfgakennt dæmi um einangrun en Húnavatnssýslurnar í alfaraleið. Sömu sögu er að segja af norðaustursvæðinu, Norður-Þingeyjarsýslu, og ennfremur suðaustursvæðinu, Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu.
Á þessum svæðum þarf sértækar aðgerðir. Við verðum að viðurkenna að kostnaður við opinbera þjónustu sé eðlilega hærri og margvíslegar sértækar aðgerðir því réttlætanlegar. Sú fjárfesting skilar sér margfalt til baka þegar þessi svæði hafa komið undir sig fótunum að nýju.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er einmitt vikið að þessum málum. Þar segir:
„Ljóst er að ákveðnar byggðir eiga við meiri erfiðleika að etja en aðrar. Gera þarf úttekt á þeim svæðum og móta tillögur um hvernig mæta má aðsteðjandi vanda“.
Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing og hana ber að taka bókstaflega. Þarna er viðurkennt að ákveðnar byggðir eigi við meiri erfiðleika að etja en aðrar. Þarna er skýlaust verið að vísa til þeirra staðreynda sem ég gerði að umtalsefni. En jafnframt segir að úttekt eigi að gera á þessum svæðum og móta síðan tillögur um aðsteðjandi vanda. Vandinn er með öðrum orðum viðurkenndur og einnig að grípa eigi til aðgerða til þess að sigrast á honum. Mikil greiningarvinna liggur þegar fyrir. Og nú er það okkar stóra verkefni að móta tillögur til úrbóta og hrinda þeim í framkvæmd.
Góðir Dalamenn.
Framundan er sumar, tími gróandans. Nú er dagur langur og birta yfir landi og lýð. Því skulum við segja og taka undir með skáldinu Tómasi Guðmundssyni: Nú er veður til að skapa.