2.4.2013

Ræða forseta Alþingis við þinglok

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, flutti ræðu við lok síðasta þingfundar þessa kjörtímabils. Hún fjallaði m.a. um stöðu Alþingis og ímynd þess í þjóðfélaginu og þakkaði þeim þingmönnum sem ákveðið hafa að gefa ekki kost á sér til endurkjörs fyrir þeirra störf í þágu lands og þjóðar.
Háttvirtir alþingismenn.

Senn lýkur störfum þessa þings sem er hið síðasta á kjörtímabilinu. Hinn 27. apríl nk. rennur út það umboð sem við alþingismenn fengum fyrir fjórum árum.
Á þessu kjörtímabili hafa sjónir almennings beinst meira að Alþingi en oftast áður enda hefur þingið þurft að takast á við mjög mörg erfið viðfangsefni á þessum tíma. Alþingi hefur oft sætt harðri gagnrýni og mælingar á viðhorfi almennings til þingsins hafa ekki verið uppörvandi fyrir alþingismenn.

Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að traust þjóðarinnar á þeirri stofnun sem Alþingi er hafi ekki bilað. Ég tel að langflestir landsmenn séu sammála um mikilvægi Alþingis sem grundvallarþáttar í lýðræðisskipan okkar. Sú pólitíska gróska sem birtist í því að fleiri muni gefa kost á sér til framboðs til Alþingis en nokkru sinni áður er í raun skýr traustsyfirlýsing almennings til þessarar stofnunar.

Vandinn er hins vegar sá að þegar talað er um stöðu Alþingis og ímynd þess í þjóðfélaginu gera menn engan greinarmun á stofnuninni Alþingi og þeim sem þingið skipa hverju sinni. Að mínu mati snýst neikvæð umræða um Alþingi ekki um stofnunina eða þau lýðræðisgildi sem hún stendur fyrir. Hún beinist fyrst og fremst að þeim sem hingað eru valdir, ákvörðunum þeirra og vinnulagi.
Kosningar eru ávallt tímamót. Við lok þessa kjörtímabils munu margir alþingismenn hverfa af þingi. Sumir hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs, aðrir hafa ekki hlotið framgang í prófkjörum og enn aðrir munu ekki ná endurkjöri eins og gengur og gerist.

Í þeim hópi alþingismanna sem hafa ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri er hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Hún er aldursforseti þingsins bæði að þingaldri og lífaldri. Það eru vissulega tímamót þegar forsætisráðherra og þingmaður til 35 ára kveður Alþingi. Hún hefur setið á Alþingi lengst kvenna, þremur kjörtímabilum lengur en sú sem næst henni kemur. Jóhanna Sigurðardóttir hefur sannarlega sett svip sinn á störf Alþingis þann hálfa fjórða áratug sem hún hefur átt hér sæti. Jóhanna hefur ætíð notið álits sem samviskusamur og dugmikill þingmaður. Hún var fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra hér á landi og það er vissulega mikilvægur sess í sögunni. Ég veit að ég mæli fyrir hönd okkar allra alþingismanna þegar ég þakka henni fyrir störf hennar í þágu þings og þjóðar og óska henni alls góðs í framtíðinni.

Önnur kempa lætur nú einnig af þingmennsku eftir að hafa verið hér með hléum í 30 ár en það er hv. 9. þm. Suðurkjördæmis, Árni Johnsen, sem fyrst tók fast sæti á Alþingi árið 1983 en hann hefur setið alls 20 ár á Alþingi. Árni hefur kryddað tilveruna hér á Alþingi, verið kappsamur þingmaður og löngum farið sínar eigin leiðir og ekki ávallt troðnar slóðir. Ég vil þakka honum löng og eftirminnileg kynni á þinginu.

Þá lætur nú einn varaforseta Alþingis af þingmennsku, hv. 5. þm. Norðausturkjördæmis, Þuríður Backman, sem hefur setið á Alþingi í tæp 14 ár. Þuríður hefur ætíð sinnt forsetaskyldum sínum af mikilli samviskusemi eins og öllu öðru sem henni hefur verið falið. Samstarf okkar hefur alltaf verið mjög gott og vil ég við þetta tækifæri þakka henni fyrir það.

Þrír fyrrverandi varaformenn stjórnmálaflokka láta nú af þingmennsku. Það eru hv. 2. þm. Norðausturkjördæmis, Birkir Jón Jónsson, hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, Ólöf Nordal, og hv. 5. þm. Suðvesturkjördæmis, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Birkir Jón hefur setið í tíu ár á Alþingi þótt ungur sé að árum, Ólöf í sex ár og Þorgerður Katrín í 14 ár og þar af á ráðherrabekk í rúm fimm ár. Annar fyrrverandi ráðherra, hv. 6. þm. Suðvesturkjördæmis, Siv Friðleifsdóttir, lætur nú einnig af þingmennsku eftir að hafa setið á Alþingi í 18 ár, þar af sem varaforseti Alþingis í tvö ár og á ráðherrabekk í sjö ár. Þessum forustumönnum þakka ég gott samstarf og góð kynni á umliðnum árum.

Auk þeirra þingmanna sem ég hef nú nefnt hafa fimm aðrir hv. þingmenn ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri. Það eru þingmennirnir Atli Gíslason, Ásbjörn Óttarsson, Lilja Mósesdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson og Þráinn Bertelsson. Ég vil einnig þakka þeim fyrir gott samstarf og góð kynni.
Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem nú hafa ákveðið að láta af þingmennsku og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Þar sem ég er í hópi þeirra þingmanna sem láta nú af þingmennsku vil ég þakka samþingmönnum mínum öllum fyrir mjög góða viðkynningu og samstarf á umliðnum árum, samstarf sem hefur verið ánægjulegt í hvívetna. Hér hefur mér þótt gott að starfa og ég læt því af þingmennsku með góðar minningar um störf mín hér. Ég hef vissulega notið þeirra 18 ára sem ég hef setið á Alþingi, jafnt sem óbreyttur þingmaður í stjórn og stjórnarandstöðu, sem ráðherra og nú síðast sem forseti Alþingis. Ég hef ekki síst haft mikla ánægju af starfi mínu sem þingforseti. Það hefur einnig verið óvenjuleg reynsla og oft verið erfitt á köflum að gegna því starfi á þeim umbrotatímum sem við höfum lifað síðastliðin fjögur ár. En ég mun sannarlega sakna Alþingis og allra þeirra sem hér starfa.

Ég hef leitast við að gegna þessu virðulega embætti eins vel og ég hef getað. Ég hef ætíð haft að leiðarljósi að vera forseti allra alþingismanna enda kjörin með nær öllum atkvæðum til þessa starfs í upphafi. Ég hef því gert mér far um að sýna öllum þingmönnum sanngirni við stjórn þingfunda og almennt við stjórn þingsins, jafnt stjórnarliðum sem stjórnarandstöðu. Í ljósi þeirra skörpu skila sem hér eru á milli stjórnar og stjórnarandstöðu hverju sinni er þetta ekki alltaf auðvelt hlutverk. Ekki hafa allir alltaf verið sáttir, hvorki stjórn né stjórnarandstaða. Þennan veruleika þekkjum við öll. Pólitískum samherjum mínum hefur stundum fundist ég taka of mikið tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðu. Það er hins vegar sannfæring mín að forseti Alþingis eigi að vera sjálfstæður í störfum sínum og stýra þingstörfum með heildarhagsmuni Alþingis að leiðarljósi en ekki út frá hreinum flokkssjónarmiðum. Ég hef því fylgt því lýðræðissjónarmiði að þótt tryggja eigi að vilji meiri hlutans nái fram skuli sýna minni hluta þingsins sanngirni og lipurð hverju sinni. Ég heiti á arftaka minn, hver sem hann verður, að halda áfram á þeirri braut.

Þegar litið er yfir þann hóp sem hefur ákveðið að hverfa af þingi við næstu kosningar er það mikið umhugsunarefni hversu margar konur sem verið hafa í stjórnmálaforustu láta nú af þingmennsku. Ásamt þeirri sem hér stendur eru þetta sex konur sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs, flestar í blóma lífsins. Þessi staða hlýtur að vera íhugunarefni fyrir íslenska stjórnmálaflokka.

Ég þakka alþingismönnum fyrir gott samstarf þann tíma sem ég hef gegnt starfi þingforseta. Að gömlum og góðum sið óska ég utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og árna ykkur öllum allra heilla.

Þau ár sem ég hef gegnt forsetastarfinu hef ég notið einstaklega góðs samstarfs við hið hæfa og mjög svo vinnusama starfsfólk Alþingis. Fyrir það vil ég nú þakka skrifstofustjóra þingsins, yfirstjórn og starfsfólki öllu.

Ég vil að lokum heita á alþingismenn og öll þau stjórnmálasamtök sem nú leita eftir stuðningi kjósenda að ganga til leiks með orðsins brand að vopni, að heyja góða og heiðarlega kosningabaráttu sem megi verða okkur öllum til sóma.

Upptaka af ræðu forseta.