15.1.2013

Ávarp forseta Alþingis við framhald þingfunda 14. janúar 2013

Við upphaf þingfunda, eftir jólahlé, flutti forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, ávarp og fjallaði um gang þingstarfa.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra góðar óskir og kveðjur til okkar alþingismanna og starfsmanna Alþingis.

Ég óska alþingismönnum gleðilegs árs og einnig starfsmönnum Alþingis og landsmönnum öllum. Það er einlæg von mín að hið nýja ár færi okkur farsæld og frið og að störf Alþingis verði landi og lýð til blessunar.

Þó að nú ljúki formlegri frestun þingfunda hefur Alþingi verið að störfum undanfarið. Alþingismenn hafa verið á fundum í þingnefndum og þingflokkum auk þess sem þingmenn hafa sinnt öðrum þeim störfum sem á þeim hvíla og fylgja því að vera kjörnir á Alþingi.

Þingfrestun er í raun gömul arfleifð eins og svo margt annað í starfi Alþingis og passar ekki vel við þá þróun sem þessi stofnun er og hefur verið í undanfarna áratugi. Það er í raun og veru orðið brýnt að færa til nútímahorfs mörg ákvæði sem er að finna um Alþingi, bæði í stjórnarskrá og lögum. Þannig nyti þingið sín betur sem lýðræðislega kjörin fulltrúasamkoma þjóðarinnar í breyttu umhverfi á nýrri öld. Jafnframt þarf að kynna störf Alþingis og alþingismanna betur og eyða alls konar gömlum og röngum hugmyndum sem eru á kreiki og jafnvel er alið á. Þær eru sumar til þess fallnar að rýra álit þingsins og þingmanna í augum þjóðarinnar.

Hv. alþingismenn. Þegar þingfundum lauk fyrir jól á fjórða tímanum aðfaranótt laugardags fyrir Þorláksmessu var hvorki staður né stund til að líta yfir farinn veg á þessu löggjafarþingi en það er fullt tilefni til þess.

Þingið hófst þrem vikum fyrr en venjulega en samt tókst ekki að ljúka afgreiðslu mála fyrir jól á tilsettum tíma. Það dróst um nokkra daga. Hinn nýi samkomudagur þingsins í fyrri hluta september var þó hugsaður til að létta á þeirri tímapressu sem oft vill verða þegar nær dregur jólum og til að gefa þinginu rýmri tíma til að afgreiða fjárlög. Mér virðist að þetta áform hafi brugðist og aðeins hafi sannast gamalt lögmál að hlutirnir taki þann tíma sem þeim eru skammtaðir. Það er dapurleg niðurstaða fyrir okkur.

Það vakti hjá mér góðar vonir að allmörg stjórnarfrumvörp komu fram á fyrstu dögum þingsins í september en síðan fór í gamalt far og mikilvæg stjórnarfrumvörp sem voru tengd fjárlagaafgreiðslu og vitað var að afgreiða þyrfti fyrir árslok komu ekki fram fyrr en í lok nóvember. Þetta eru vinnubrögð sem verður að laga.

Síðan gerðist það sem orðinn er nær fastur liður hér að stjórnarandstaðan hefji langar umræður þegar líður á haustþingið og spyrja má nú hverju það hafi skilað.

Alþingi er í senn æðsta og mikilvægasta stofnun samfélagsins. Við sem erum kjörin á þing til að fara með vald þess verðum að taka alvarlega þær aðfinnslur og mælingar sem vinnubrögð á Alþingi fá. Í þeim efnum felst skýr áskorun um að láta langtímahugsun, ábyrgð og hófsemi ráða meiru í störfum þingsins en ekki skammvinna pólitíska sigra í þessum sal. Það er skylda okkar að gæta fjöreggsins.

Fram undan eru tveir mánuðir þar til þingfundum lýkur á þessu kjörtímabili og kosningabaráttan hefst að fullu. Það er ekki langur tími. Starfsáætlun sem samþykkt var síðastliðið haust segir að þingstörfum ljúki um miðjan mars. Ég hvet þess vegna þingmenn til að hafa Alþingi og stöðu þess í stjórnskipuninni í huga á næstu vikum og mánuðum. Jafnframt heiti ég á þingmenn að ljúka endurskoðun þingskapa sem staðið hefur yfir á þessu kjörtímabili. Þannig mætti afhenda nýju þingi og nýjum þingmönnum betra regluverk með þeim fyrirheitum að bæta eigi vinnubrögð þingsins í þágu lýðræðishugsjóna okkar og í þágu þjóðarhags.

Upptaka af ávarpi