11.9.2012

Ávarp forseta Alþingis við setningu Alþingis 11. september 2012

Ég býð á ný háttvirta alþingismenn og gesti Alþingis velkomna til þingsetningar. Þessi dagur markar ákveðin tímamót í störfum Alþingis. Alþingi kemur nú saman í fyrsta sinn samkvæmt nýjum ákvæðum þingskapa um samkomudag þingsins, en hann verður framvegis annar þriðjudagur í september.

Eins og jafnan er á síðasta þingi hvers kjörtímabils standa þingfundir í styttri tíma en annars á reglulegu þingi. Þingið skiptist því aðeins í tvær annir en ekki þrjár. Haustþingið verður frá 11. september og fram að jólum og vetrarþingið frá miðjum janúar og fram undir páska í mars.

Þrátt fyrir styttra þinghald bíða mörg stór og erfið verkefni úrlausnar og nægir þar að nefna stjórn fiskveiða, nýtingu og vernd auðlinda og breytingar á stjórnarskrá, að ótöldum mörgum verkefnum sem tengjast áföllunum sem skóku samfélag okkar fyrir fjórum árum og setja enn mark sitt á þjóðfélagsumræðuna. Störf þingsins verða því annasöm og er mikilvægt að okkur auðnist að eiga gott samstarf um lausn þeirra mála sem fram undan eru.

Á þessu kjörtímabili höfum við gert ýmsar veigamiklar breytingar á þingsköpum og verður haldið áfram að vinna á þeirri braut á þessu þingi. Þingskapanefnd hyggst leggja fram í haust frumvarp þar sem tekið verði á þáttum eins og ræðutíma og starfsháttum og skipulagi fastanefnda. Ef þessar og aðrar breytingar ná fram að ganga fyrir þinglok er stefnt að því að þær taki gildi við upphaf nýs kjörtímabils. Er það von mín að þá geti farið að skapast nauðsynleg festa í störfum Alþingis eftir breytingar undanfarinna ára.

Nú eru starfandi tvær rannsóknarnefndir samkvæmt ályktun Alþingis, um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Þess er að vænta að þær ljúki störfum fyrir eða um næstkomandi áramót. Þó að lögin sem Alþingi setti fyrir rúmu ári um rannsóknarnefndir hafi verið mjög mikilvægur þáttur í því að efla enn frekar eftirlitsvald Alþingis tel ég engu að síður að við alþingismenn verðum að sýna varkárni og ábyrgð við beitingu þessa valds. Við þurfum ekki aðeins að horfa til þess að störf rannsóknarnefnda eru kostnaðarsöm og fyrirhafnarmikil heldur er einnig mikilvægt að spyrja sig hvort starf þeirra standi undir væntingum og skili raunverulegum árangri fyrir samfélagið.

Við megum ekki vera svo uppnumin af rannsóknarnefndum að við förum að líta á þær sem bót allra meina. Skipun nefndanna verður þá aðalmálið en ekki niðurstöðurnar. Förum því varlega í þessum efnum og gætum þess sem er lykilatriðið, að fylgja eftir niðurstöðum slíkra nefnda svo þær rykfalli ekki á borðum okkar. Niðurstöður sem ekkert er gert með eru lítils virði.

Síðar í haust fer fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, sem Alþingi hefur ályktað um að efnt skuli til, um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og atriði þeim tengd. Það eru liðin nær 80 ár síðan síðast efnt var til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvörðun Alþingis.

Alþingi mun standa að víðtækri kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæði. Lagastofnun Háskóla Íslands og ýmsir sérfræðingar á hennar vegum hafa unnið að hlutlausu kynningarefni. Það verður tvenns konar, annars vegar bæklingur sem dreift verður á hvert heimili í landinu og hins vegar upplýsingar á vefsetrinu þjóðaratkvæði.is. Í síðustu viku þessa mánaðar verður vefsetrið opnað formlega og í framhaldi af því verður kynningarbæklingurinn settur í póstdreifingu.

Á þessu sumri hefur verið unnið að því að ljúka fornleifarannsóknum á Alþingisreit. Óhætt er að segja að þær rannsóknir hafi verið hverrar krónu virði. Margar minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa fundist á svæðinu og ljóst er að hér vestan við Alþingishúsið hefur verið mikilvægt atvinnusvæði í upphafi landnáms. Þar hefur meðal annars fundist heillegt járnvinnslusvæði.

Það dylst engum að á Alþingi verður ekki sátt um öll þau mál sem verða rædd og afgreidd á þessum vetri. Óhjákvæmilegt er því að tekist verður á í þingsal. En ég ber upp eina ósk til alþingismanna: Látum umræður í þessum sal mótast af virðingu fyrir skoðunum hvers annars.

Þessum þingfundi verður nú brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis.

Ég bið hæstvirtan forsætisráðherra að ganga fremstan með mér úr salnum til Skála. Þessum fundi er nú frestað til kl. 4.

Upptaka af ávarpi forseta.