30.4.2020

Ný starfsáætlun fyrir tvo síðustu mánuði vorþings

Forsætisnefnd samþykkti á fundi sínum 29. apríl nýja starfsáætlun fyrir tvo síðustu mánuði vorþings en starfsáætlun fyrir 150. löggjafarþing var tekin úr sambandi 19. mars sl. vegna COVID-19 faraldursins. Gert er ráð fyrir að tvær vikur bætist aftan við upphaflega áætlun.

Þá er gert ráð fyrir að nefndir þingsins geti frá 4. maí fundað á föstum fundatímum auk þess sem sérstakar fundatöflur verða gerðar fyrir nefndadaga. Áfram er þó miðað við að nefndafundir séu fjarfundir, en það verður endurskoðað eftir því sem tilmæli sóttvarnayfirvalda gefa tilefni til.

Forsætisnefnd hefur einnig ákveðið að framlengja fyrri samþykkt sína um að vinnutengdar ferðir þingmanna og starfsmanna skrifstofunnar til útlanda falli niður og að jafnframt falli niður móttökur, fundir og ráðstefnur hérlendis með þátttöku erlendra gesta. Sú ákvörðun gildir til loka þingfunda á yfirstandandi vorþingi.